Lífsins tré

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 

Úr Lífsins tré:


Scarlet saumakona bjó herra Quackqueer Iceland í alíslenskan búning. Francois Porte og systurnar voru góða stund að finna réttu múnderinguna og Jens Duffrín mátti enn eina ferðina þola þá raun bernsku sinnar að máta aftur og aftur þræddar og hálfsaumaðar flíkur. Að lokum var hann klæddur í hnéháa sokka og einhvers konar sauðskinnsskó með loðnuna út, þar fyrir ofan var hann berlæraður í stuttu leðurpilsi og gæruskinn bundið honum á bak og fest saman um hálsmálið. Hann skyldi vera ber að beltisstað að öðru leyti. Það kom á daginn að hann var raunverulega kafloðinn, ekki bara á bringunni heldur um allan líkamann. Á höfuð hans setti svo Scarlet einhvers konar skinnhúfu með marglitum dúskum. Hún var bundin saman undir kverk með tveimur refhölum.
Já, það gat á að líta, systurnar voru klæddar í svipaða múnderingu, nema hvað þær voru velsæmisins vegna hvorki berlæraðar né naktar að beltisstað. Tablóið sjálft var þannig að Jens Duffrín stóð sperrtur með krosslagða arma og systurnar sátu við fætur hans. Þau æfðu hreyfingarleysi hvenær sem færi gafst og Dunmore Bishop málaði skilti með sjálflýsandi grænum stöfum til að setja við sýningarbásinn þeirra í tablótjaldinu. Þar mátti lesa: Ekta Íslendingar. Sjáið fulltrúa dvergþjóðarinnar í Íshafinu, sjáið herra Quackqueer Iceland og eiginkonur hans tvær, Wombu og Trombu. Þau kunna einnig að syngja og dansa.


(s. 213-4)