Leyndardómar Reykjavíkur 2000

Staður: 
Reykajvík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Kaflar í glæpasögu sem samin er af ýmsum höfundum.

Úr Leyndardómum Reykjavíkur 2000:

28. kafli

Í huganum lét ég hnífinn ekki síga fyrr en ég var kominn heim. Hann blikaði þar enn á nöktum brjóstunum. Eitt andartak leyfði ég mér að gera það sem ég hafði neitað mér um hálftíma áður. Ég lét hann vaða á kaf í þessi stóru og þungu brjóst, fyrst í það vinstra, svo í það hægra. Mér leið svo vel þetta eina andartak að ég flýtti mér að stroka hugsunina út áður en ég sæi blóðið gjósa úr barminum.
Ég stóð másandi í forstofunni og barðist við að bæla niður þessa skelfilegu tilfinningu. Ég hefði getað myrt manneskju og fundist það gott, réttlátt og gott. Numið ógnina á brott í einu vetfangi.
Svo rauk ég inn í eldhús, stökk upp um hálsinn á Jack Daniels og hélt mér fast. Um síðir tók Jack í hönd mér og leiddi mig rólega inn í stofu þar sem ég sökk niður í djúp hægindin. Djúpt sokkinn sat ég og hlustaði á gargandi næturþögnina.
Ég leit í kringum mig eins og ókunnugur maður. Einu sinni fyrir óralöngu voru þessi húsakynni nýtískulegt og snyrtilegt heimili mitt. Einu sinni. Þegar líf mitt var í föstum skorðum. Þegar ég var kóngur í ríki mínu og réði öllu. Þegar ég var laganna vörður. Þegar ég hafði reglu á óreglu. Núna? Ikea, jú, en algjör brunaútsala.
Langar þig til að horfa á? Eða kannski að taka þátt? hafði Didda sagt brosandi. Oft sinnis hafði ég ímyndað mér slíka sviðsetningu. Ég og tvær konur. En á því augnabliki sem Didda bauð mér upp á raunveruleikann leystist kitlandi fantasían upp í yfirþyrmandi ótta. Heimur minn sem að sönnu var að hruni kominn splundraðist framan í mig. Ég hafði fleygt frá mér hnífnum og tekið á rás út úr íbúðinni.
Hvernig sem ég ólmaðist í huganum gat ég ekki flúið þá hugsun að Didda hefði svikið mig. Svikið mig tilfinningalega og kynferðislega, svikið mig með konu, svikið mig með konu sem var uppvakinn draugur úr minni eigin fortíð. Og hvernig sem ég ólmaðist gat ég ekki flúið þá hugsun að þessi svik hefði ég kallað yfir mig sjálfur.
Mér tókst ekki að flýja þá hugsun fyrr en ég seildist svo djúpt í sjálfsblekkjandi vökvann að Jack Daniels sleppti af mér hendinni. Ég sat einn og yfirgefinn. Ég var einn og óstuddur.

(s. 166-167)