Lendar elskhugans

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

Úr Lendum elskhugans:

Hér
var
einu sinni

blámálað timburhús
með hvítum gluggakörmum
og dyrnar í suður
móti sólinni
græn flöt
svart grindverk
og túlípanar
meðfram stéttinni

Hér bjuggum við

Hér dansaði systir mín
berfætt í vindinum
beið elskhugans
sem fór

fætur hennar voru trylltir

Ég sat á tröppunum
og horfði á hana

fægði mynd
af horfinni vinkonu
sem ort hafði ljóð
um blóm á pilsum kvenna

Ég elskaði ljóð
sem ég hafði aldrei heyrt

elskaði blóm
á pilsum kvenna

sat á tröppunum
og var þögul

óttaðist
að trufla
trylltan dansinn
galdur ljóðsins

fann hvernig blóm þess
stungust í hönd mína
sá hana blóðgast

Hér bjuggum við

Og þá kom hún til mín
sú sem núna smíðar lykilinn
sú sem núna heyrir ekki rödd mína

og bað mig að bíða tímans
sem sefaði sárin
sefaði allt

og hún leiddi mig í húsið
kyssti augu mín

Ég man hversu mjúk hönd hennar var

Og hún kveikti upp
í arninum
fór höndum
um líkama minn
kveikti ást mína
eld minn

Þá formælti ég
söknuði systur minnar

formælti
elskhuganum sem fór

Núna er hann vinur minn
og bein hans ljóma
í birtu frá öðru tungli

Núna dansar elskan mín
með systur minni
berfætt á flötinni

Hér var einu sinni
blámálað timburhús

Var
einu sinni
hér.

(bls. 22-27)