Leitin að landinu fagra

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1985
Flokkur: 

Úr Leitinni að landinu fagra:

Oft á tíðum fundu íbúarnir á sér að landið leysti landfestar og hófst af grunni og seig hægt í suðurátt. Í önnur skipti lyftist það til óljósra himna í miklu skýjafari og borgum. Líka var það oft að landið strandaði og lá lengi á hliðinni og boðaföll gengu látlaust yfir það. Enginn reyndi að reisa það við og halda mætti að íbúarnir kynnu vel við að hafa strandað og að búa á strandstað.

Nú voru aðrir tímar, landið barst óðfluga af strandstað fyrir heitum erlendum straumum, við hafflóð sem gaus úr vitum vísindalegra hugsuða. Langþráð stund hugarheimsins rann upp yfir eyna. Hún var brátt komin á flot. Það var loks auðfundið. Hún synti með fætinum. Hún synti með öllum skönkum, skögum og útnesjum, burt, eitthvað burt. Alveg sama hvert. Fram að þessu hafði líf landsmanna verið eilíft volk. Eins og á stórstraumsflóði sigldi eyjan og bárurnar báru hana í voninni að ókunnum ströndum landsins fagra sem fólk fullkannaði á svipstundu. Fólkið sá dýrlegar kartöflur vaxa hvarvetna fyrir hugskotssjónum þess, rósrauðar og bláar og skjöldóttar í gróðursælum snjósköflum á hæð við hús. Þarna höfðu vísindin brotið erfiðleikana á bak aftur, náttúran laut í lægra haldi og þeim í lotningu. Þau höfðu komist svo langt að hægt var að þrýsta á hnapp og velja sér viðeigandi loftslag, og enginn valdi slyddu, rigningu, rok, snjó og byl eða skafla, nema vegna kartaflanna. Við hvern bæ var stór skafl fyrir þær. Skáldið linnti ekki látum við að rífa upp eikardyrnar, brjótast móti mótvindi og stormi og koma út af fyrsta á Gullfossi og boða alþjóðlega loftslagsbreytingu á Íslandi.

Eftir veðurfarsbyltinguna verður staðviðri það sem eftir er eilífðarinnar sem er í nánd, boðaði skáldið og lá hátt rómur. Sögulega séð verður veðráttan úr sögunni.

Stólpaprestunum var nóg boðið að heyra guðlast um veðrið og ruku óðar í blöðin og kváðu eilíft staðviðri vera aðeins hjá guði. Þar er eilíft logn um aldir alda, því hann andar ekki einu sinni.

Skáldið kom í síbylju út af farrýminu sínu, sagði Hugborg. Það varaði þjóð sína ekki aðeins við íhaldskerlingum heldur híaði líka óspart á stólpapresta og lækna sem sönnuðu með líffæralestri að landið fagra væri aðeins til sem uppbót í öðru lífi og andinn öðlaðist það með dauða líkamans eftir trúmennsku í starfi og húsbóndahollustu, einkum við stórbændur. Trú var eina hollustufæðan að mati lækna þá.

Við þær yfirlýsingar var skáldið ekki seint á sér að koma með Gullfossi sem sigldi eitt skipa milli Íslands og umheimsins. Í greinasafni hamraði það á því að í landinu fagra ríkti sá stórbóndi sem hefði einungis ráðsmenn. Þeir gerðu ekkert annað en ráða rétt fólk á ráðstefnur. Þær voru haldnar dag og nótt allan ársins hring. En kaupafólk sem slíkt hefði verið gert að rannsóknarefni fornsagnafræðinga.

(s. 39-40)