Leikur á borði

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Leikur á borði var valin besta sagan í samkeppninni um Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2000. Fjöldi spennandi og skemmtilegra handrita barst í samkeppnina en það var þó einróma álit dómnefndar að Leikur á borði bæri af, bæði hvað varðar efnistök og stílbrögð.

Sóley er klár og sjálfstæð stelpa. Í skólanum gengur henni mjög vel að læra en bekkjarsystkini hennar leggjast öll á eitt um að gera henni lífið leitt. Þegar ný stelpa kemur í bekkinn fara óvæntir hlutir að gerast sem eiga eftir að gjörbreyta lífi Sóleyjar. Leikur á borði er í senn einlæg, spennandi og vönduð saga sem höfðar til lesenda á öllum aldri.

Í áliti dómnefndar segir m.a.: ,,Leikur á borði er áhrifamikil og grípandi saga sem er skrifuð af miklu innsæi og næmi. Í liprum texta tekst höfundi að skapa spennandi söguþráð og eftirminnilegar persónur samhliða því að taka til umfjöllunar viðkvæm mál sem koma öllum við.


Úr Leik á borði:

Þau koma til Keflavíkur rétt í því að vélin lendir og margir hafa þegar raðað sér upp við glerrúðuna sem aðskilur biðsalinn og komusalinn. Sóley tyllir sér á tær og nær að kíkja yfir höfuðið á strák sem breiðir úr sér við gluggann. Farþegarnir birtast einn af öðrum, fyrst fætur og töskur í rúllustiganum, svo kápur og frakkar og loks andlitin.

Hún þekkir pabba sinn ekki alveg strax þegar hún sér hann. Hún hefur verið að skima eftir honum, gleymdi því aftur að hann kæmi ekki einn niður stigann. Þau standa í sömu tröppunni, hann og konan, og hann heldur utan um hana. Þau ganga líka saman að glerrúðunni og pabbi leitar að þeim í hópnum, afa, ömmu og Sóleyju, veifar til þeirra og brosir og sendir Sóleyju fingurkoss. Svo fara þau að ná í töskurnar.

,,Yndisleg kona. Hvernig gat hann sagt að þetta væri yndisleg kona? Sóley er viss um að hún hefur aldrei á ævinni séð eins venjulega konu og þessa. Hún er hvorki hávaxin né lágvaxin, hvorki grönn né feit - þó frekar í þybbnara lagi. Hún er ljóshærð og líklega bláeygð og hvorki fríð né ófríð. Hvað er svona yndislegt við hana?

Þau eru fjlót að finna töskurnar og komast í gegnum tollinn og allt í einu er Sóley umvafin sterkum handleggjum sem lyfta henni upp. Hún grúfir sig að pabab eitt andartak og berst við að kyngja kekkinum í hálsinum. Svo segir pabbi:

- Þetta er hún Sóley mín, elskan, er hún ekki falleg?

- Jú, víst er hún það, segir Guðrún með syngjandi sænskum hreim. Hún réttir fram höndina, brosandi. Sóley tekur í framrétta höndina og brosir kurteisislega. Það er að minnsta kosti gott að hún fer ekki að faðma hana og kyssa.

Fullorðna fólkið talar stanslaust alla leiðina heim í Kópavoginn og þegar þangað er komið tekur við gestagangur og kaffidrykkja. Allir þurfa að heilsa pabba og nýju konunni - hún verður víst að venja sig á að hugsa um hana sem Guðrúnu.

Pabbi opnar eina töskuna og tekur fram gjafir handa henni; fallegan, síðan náttslopp og inniskó við og stóran kassa með fínum trélitum. Það er svo fallegt að sjá litina liggja í röð, frá rauðu yfir í fjólublátt, svo blátt, svo grænt - alla ósnerta með hárbeittan odd. Hana langar næstum að halda þeim svona heilum og hreinum, liggjandi í réttri röð eins og tónarnir í tónstiganum, en samt getur hún varla beðið eftir að nota þá til að lita með.

(43-5)