Leikföng leiðans

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1963
Flokkur: 

2. útg. endurskoðuð. Reykjavík : Forlagið, 1997.

Úr Leikföngum leiðans:

Kvöld hinztu sólar (brot)

Ha?

Maðurinn hlýtur að hafa rotazt.

En þá skaut honum snögglega upp á yfirborðið. Öllum létti og hann frussaði sjónum frá sér með þykkum vörunum og spýtti, sletti hárinu frá enninu og augunum og lá síðan marflatur á bakinu í vatnsskorpunni með nefið og blátágómana upp úr.

Þetta var sólríkur dagur á miðju sumri með logn og hita í lofti. Á bryggjunni höfðu nokkrir unglingar hópazt saman í kaffihléinu, stelpur og strákar, nemendur hans í sundi, einnig fáeinir fullorðnir til að horfa á nýja sundkennarann, sundgarpinn sjálfan, leika listir sínar og synda tvo hringa umhverfis kænu, sem lá úti á miðri höfn. Hann synti baksund með miklu skvampi og látum, bringusund með breiðum, sterklegum tökum, skriðsund, svo sjórinn sogaðist og freyddi, velti sér á bakið og hélt sér á floti í hálfu kafi. Alltaf öðru hverju tók hann snöggt viðbragð eins og sprettfiskur undan steini og kom fljúgandi áfram að bryggjunni á flugsundi og lét sjóinn ólga um brúnan, vöðvastæltan hálsinn, sem hafði umvafizt grænu slýi þegar hann kom upp af kafsundi.

Hann líktist einna helzt sjávarnykrinum, sagði gömul kona í gulu, olíubornu pilsi, liggur í felum og æðir um hafið þess á milli.

O, hann er alveg eitilhart kvikindi og álliðugur sagði rámur maður með rautt skegg. Hérna kemur hann.

Sundkennarinn klifraði upp bryggjustigann með líkamann alþakinn bláum kuldaflekkjum.

Er ekki hálf einkennilegt að geta látið sig fljóta svona hreyfingarlausan ofan á vatnsskorpunni eins og flotholt? spurði konan.

Hann er með sundmaga, sagði ungur maður.

Kennaranum gramdist þessi athugasemd og dró ósjálfrátt inn kviðinn. Hann svaraði engu.

Og er þér ekki kalt svona? spurði kerlingin í gula pilsinu, - ég á við, svona strípaður, því ekki getur verið neitt skjól í þessum bleðli.

Bleðli? - Þetta er bíkíni, hló kennarinn.

Við jafn einkennilegt orð varð konan þögul.

(s. 150-151)