Leigjandinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1969
Flokkur: 

Úr Leigjandanum:

En hann stóð við að þrýsta flötum lófunum á sófann. Hann þrýsti fast þar til hann kom niður á grindina og sleppti svo snögglega. Þetta gerði hann nokkrum sinnum og í hvert skipti spratt fjaðurmagnað bólstrið upp undan höndum hans. Síðan fleygði hann sér út af. Hann mældi lengd sína við lengd sófans, með því að teygja úr sér náði hann rétt að spyrna í bríkina á sófanum og tók að draga hann fram á gólf. Hann var jarðvöðull, um það var ekki að villast. Hann var rétt búinn að dengja sófaborðinu um koll og hún náði að forða því á síðustu stundu og nær samstundis blöstu rákirnar við augum hennar. Undan fótunum á sófanum þar sem hann dró hann hægt en ákveðið eftir þykku og mjúku gólfteppinu mynduðust djúpar rákir og nú þoldi hún þetta rask ekki lengur þegjandi, hún hleypti brúnum og sagði að sófinn hefði alla tíð staðið þarna og hvar annars staðar ætti hann svo sem að vera? Þau höfðu vandað sig við að raða húsgögnunum niður þegar þau fluttu hingað inn og komizt að þeirri niðurstöðu að sófinn færi bezt þarna, auk þess væri hann svo stór að hann kæmist hvergi fyrir annars staðar, ekki svo vel færi...
 Meðan hún talaði elti hún manninn og sófann og rákirnar sem lengdust í sífellu unz hún tók loks undir hina bríkina og fór að hjálpa honum að bera. Hann gekk afturábak í átt til dyranna en hún áfram og sófinn á milli þeirra og allt í einu rak hann fótinn í smáborð þar sem stóð öskubakki frá kvöldinu áður. Borðið valt og öskubakkinn fór í gólfið, vindlingsstubbar og aska hrundu yfir teppið. Honum hrökk blótsyrði af vörum, andlitið herptist í grettum. Gat maðurinn hafa meitt sig? Eða var hann reiður? Guð mátti vita að það var ekki svo auðvelt að túlka svipbrigði ókunnugs fólks, en hún flýtti sér að segja að þetta gerði ekkert til, það væri nú það góða við að hafa teppi á gólfum að öskubakkar brotnuðu ekki þó þeir færu niður, hún vonaði bara að hann hefði ekki meitt sig, en sín vegna, ja, hún ætti hvort sem var eftir að ryksuga, hún hefði ekki komizt til þess ennþá og meiri eða minni aska í rykinu gerði ekkert til, væri meira að segja mátulegt á hana úr því hún hefði ekki tæmt öskubakkann í gærkvöldi, auðvitað hefði hún átt að tæma hann í gærkvöldi eða minnsta kosti fara fram með hann úr því hún var að reykja þetta á annað borð, þetta væri auðvitað mesti ósiður . . . þessar reykingar . . . hún hefði . . . aldrei . . . átt að . . . byrja . . . á . . . því . . .
 Hún talaði slitrótt því að hún var orðin móð af áreynslu. Handleggirnir voru dofnir þegar hún mátti loks sleppa sófanum. Þau voru komin með hann fram í forstofu. Hún reisti sig hægt upp því að hún fann til eymsla í baki, leit ráðþrota framan í hann og sagði að síðustu: Auk þess má alltaf búast við að eitthvað fari úr skorðum þegar verið er að flytja hluti til.

(s. 14-16 )