Á leiðinni niður: Vængjaþytur og þrívíðir bakþankar

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2011


Birtist í Sjónarmið: Á mótum myndlistar og heimspeki.Úr Á leiðinni niður:2. ÓhugsandiHeimspekingar hafa þegið svo ósegjanlega margt frá myndlistinni og myndlistin frá heimspekinni. Því er spennandi áskorun að miðla þeirri gagnkvæmu gjöf til áhorfenda. En það er allt eins víst að sú gjöf verði allt önnur og ef til vill alls engin gjöf. Heimspekingurinn Jacques Derrida lýsir ómöguleika gjafarinnar og þá lýsingu má yfirfæra á ómöguleika þessarar viðleitni okkar heimspekinganna til að koma saman upplýsandi sýningu:Um leið og gjöfinni er gefið að vera gjöf þá er engin gjöf. Því má segja að ef er engin gjöf þá er engin gjöf, en ef er gjöf og hún er meðtekin sem gjöf af hinum, þá er heldur engin gjöf, því gjöfin er ekki til sem slík og hún kemur ekki fram sem gjöf.

(Derrida 1991, bls. 27)Um leið og ákveðnum myndverkum er stillt upp sem verkum sem vekja hugsun eða hafa í sér hugsun, þa er allt eins víst að þau veki einmitt enga hugsun. Eða er það ekki í hæsta máta persónulegt og jafnframt háð ótal utanaðkomandi þáttum hvort listaverk hitti menn í höfuðið?Ég rakst á áhugavert og gagnlegt greiningarkerfi eftir Níels Hafstein sem segja má að sé frumkvöðull í myndlist á Íslandi, hann hefur sett upp margar sýningar á sínum eigin verkum og annarra og hefur líklega ætlað sér að búa til tæki til að skýra hugsun sína og annarra um listaverk. Um er að ræða 16 þátta greiningarkerfi sem hann kallar Hringferil myndlistar. Þar eru listuð ákveðin einkenni og viðmið til að greina listaverk, svo sem: Frumleiki, föndur, sakleysi. Mig myndi langa til að koma mér upp slíku persónulegu greiningarkerfi í framtíðinni. Ég er enn ekki orðin meðvituð um það hvers kyns sú myndlist er sem hrífur mig og fær mig til að hugsa. Yfirleitt er það abstrakt nálgun, ef það skýrir eitthvað. Annars finnur maður það bara, eins vel og maður finnur hve mörg verk snerta mann lítið, kannski sérstaklega þau sem vilja stýra manni til að hugsa nú rækilega um eitthvað vandamál eða kalla fram geðshræringu, hlátur, viðbjóð eða undrun, slík verk ná oft engum hljómgrunni í mér.(192-3)