Leiðin til Rómar: Skáldsaga Íslands II

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 


Sjálfstætt framhald Myndarinnar af heiminum.

Af bókarkápu:

Á 12. öld er öll Evrópa á faraldsfæti til Rómar. Þar leita menn sálu sinni hjálpar og freista þess að greiða götu hennar til himna. Á Íslandi vex vegur kristninnar, þótt á ýmsu gangi, og á meginlandinu leggjast menn í krossferðir. Á 20. öld liggja leiðir líka til Rómar en ólíkt pílagrímum fyrri tíma fer Máni þangað á puttanum.

Úr Leiðinnni til Rómar:

Bróðir Arngrímur Brandsson finnur á eigin teini að þessi jartein er ekki sem heppilegust. Hann leggur frá sér fjöðrina og gengur að glugganum. Í klausturgarðinum arka tveir bræður fram og til baka og hafa stungið höndum inn í víðar ermarnar, en hetturnar slúta yfir andlitin svo minnir á - seli. Lengra í burtu sér yfir sandinn út að sjónum þar sem dýrin flatmaga svo stirnir á fitugljáandi belgina.
 Arngrímur Brandsson, munkur á Þingeyrum, er að efna í helgisögu Guðmundar Arasonar Hólabiskups, einskonar fylgiskjal með umsókn sem þarf að þýða yfir á latínu og senda suður í Páfagarð sem nú hefur reyndar færst mörgum dagleiðum nær - til Avignon í Provence. En þeir í Vatikaninu eru ekkert bráðfljótir að svara erindum, á þeim bæ skoðast allt undir sjónarhorni eilífðarinnar. Nú var ein og hálf öld síðan samskonar erindisbréf voru send suður vegna tveggja íslenskra dýrlingsefna: Þorláks helga í Skálholti og Jóns Ögmundssonar Hólabiskups.
 Þá er það árið 1313 að Hólastóll stendur illa fjárhagslega. Biskupinn nýi, Auðunn rauði, hefur ráðist í fjárfrekar byggingarframkvæmdir - utan um sjálfan sig. Auðunn er norskur og lítið fyrir að sulla í vatni eða hita upp híbýlin með andardrætti íbúanna eða ylnum frá húsdýrunum. Hann lætur smíða sér glæsilegt einbýlishús og innrétta í það forláta ofn úr rauðu bergi sem hann sækir í hlíðina fyrir ofan staðinn. Íslendingar eru ekki vanir svona frumkvæði og við biskupinn festist viðurnefnið rauði.
 Allt kostar þetta mikla fjármuni, en Auðunn sér blasa við ónýtta auðlind þar sem er líkið af Guðmundi góða. Þá voru liðin nær 130 ár frá dauða biskupsins og allar götur síðan höfðu innlend kirkjuyfirvöld streist á móti því að lýsa yfir helgi hans - menn voru jafnvel búnir að gleyma hvar honum hafði verði holað niður.
 Það er byrjað að grafa í kórnum, á endanum finnst hann úti við dyr.

(s. 130-131)