Lát hjartað ráða för

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995

Susanna Tamaro: Va' dove ti porta il cuore.

Úr Lát hjartað ráða för:

Opicina, 16. nóvember 1992 (brot)

Þú fórst fyrir tveim mánuðum og í tvo mánuði hef ég ekkert frétt af þér, fyrir utan póstkort þar sem þú gefur mér í skyn að þú sért á lífi. Núna í morgun úti í garðinum stansaði ég lengi fyrir framan rósina þína. Enda þótt það sé komið vel fram á haustið ljómar hún í purpuralit sínum, einstæð og dreissug, yfir öðrum gróðri sölnuðum. Manstu hvenær við gróðursettum hana? Þú varst tíu ára og hafðir fyrir skemmstu lesið Litla Prinsinn. Ég hafði gefið þér hann í verðlaun þegar hún varst færð upp um bekk í skólanum. Þú varst heilluð af sögunni. Af öllum persónum varstu hrifnust af rósinni og refnum; hinsvegar féll þér ekki við baóbabtréð, slönguna, flugmanninn né alla þessa innantómu og tilgerðarlegu karla sem römbuðu á sínum örsmáu hnöttum. Og svo sagðirðu einn morguninn þegar við vorum að borða morgunverðinn: Mig langar í rós. Þú svaraðir mótbárum mínum að við ættum nóg af þeim: Mig langar í eina sem sé bara mín, ég vil hugsa um hana, láta hana verða stóra. Auðvitað vildirðu auk rósarinnar eignast ref. Af barnslegum klókindum settirðu nærtæku óskina framar þeirri sem var næstum óhugsandi að uppfylla. Hvernig gat ég neitað þér um refinn eftir að hafa látið rósina eftir þér? Um þetta þrefuðum við lengi; loks sættumst við á hund.

(s. 7)