Landið handan fjarskans

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Úr Landið handan fjarskans:

Einhverjar sveitir voru handan fljóts. Þær héldu stöðvum þar. Hvers vegna ekki þeir? Lokst fóru þeir líka. Þann dag sáu þeir fleiri sveitir en fyrr. Jannis skildi að herinn var miklu stærri en hann hafði haldið. Og samt sáu þeir aðeins brot af honum. Slíkur her gæti sigrað hvað sem væri. Nú varð honum ljóst hvað það var að vera stoltur hermaður. Einmitt hér.
 Dagurinn byrjaði ekki vel. Þeir voru ræstir út í fyrstu morgunskímu. Að vísu var veðrið hlýtt. En regnið helltist niður og rigningin var ekki hlý. Þeir blotnuðu í gegn standandi í röðunum. Þungt var yfir þeim. Sum fötin höfðu hlaupið og sá í beran magann á þeim sem ekki voru í skyrtu innan undir. Eða jakkinn hafði verið of lítill frá upphafi. Þeir áttu greinilega langa göngu fyrir höndum. Vonandi stytti upp áður en kæmi til orrustu. Hætt var við að musketturnar yrðu lítils virði í slíkri bleytu, jafnvel þótt þeir reyndu að verja patrónurnar og tinnuna. Jannis var ekki jafn stoltur og áður. Var hægt að vinna stríð með slíkum her? Köldum, illa klæddum, oft svöngum. Nokkra vantaði.
 - Það er að byrja, sagði Jomma rólega. Hersýkin? Já, rauðsóttin. Kæmi hún líka hér? Hún kæmi upp í öllum herjum. Sulturinn og sóttin, systkinin tvö. Það væru þau sem ynnu öll stríð að lokum. Allir aðrir töpuðu. Var þetta rétt? Í dag vildi hann ekki hlusta á Jommu. Voru ekki landráð að tala slíkt? Ætti hann að kæra hann? Þeir gengu ekki beint að fljótinu. Niður með því, sagði Jomma. Vissi hann það, án þess að sjá það? Vissi. Þeir voru á leið til Konungsins Hafnar. Konungsins Hafnar! Jannis hitnaði öllum og hann gleymdi rigningunni. Loksins! Það var gott að komast af stað, þeim hlýnaði fljótt á göngunni og þeir hættu að skjálfa. Þeir fóru að syngja.
 - Byssan strokin og stingurinn klár en strákurinn langt að heiman.
 Einn og tveir og áfram gakk og strákurinn langt að heiman.

(s. 52-53)