Lalli ljósastaur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Stefán Kjartansson myndskreytti.

Úr Lalla ljósastaur:

„MAAAMMMMMMAAAA. HJÁÁÁÁÁÁLP. HJÁÁÁÁÁÁÁLLP, MAAAAAAMMMMMAA.“ Lalli öskraði svo hátt að rúðurnar í íbúðinni titruðu. Mömmu hans brá svo rosalega að hún sprautaði súrmjólk yfir borðið og framan í pabba hans og litla systir hans var næstum því búin að gleypa tannburstann. Þeir, sem voru ekki nú þegar vaknaðir í blokkinni, hrukku upp með andfælum þegar þessi háværa og lifandi vekjaraklukka fór fyrirvaralaust í gang. Fæstir í blokkinni vissu hver öskraði en það kom brátt í ljós. Þegar Lalli vaknaði eftir hræðilega martröð lá hann með höfuðið undir skrifborðinu, annan handleggin undir rúmi en hinn út í horni. Fæturnir voru klemmdir upp við hurðina og náttfötin hans héngu á honum eins og rifnar tuskur. Lalla verkjaði svo mikið um allan skrokkinn að hann átti bágt með að opna augun. Þegar honum tókst það loksins rak hann upp öskrið sem skar í eyru allra í blokkinni. Það tók hann smá stund að átta sig á því hvað höfuðið á honum væri að gera undir borði en fyrst hélt hann að höfuðið hefði hreinlega dottið af búknum og rúllað undir borðið. Þegar hann ætlaði að reyna að hreyfa sig hafði hann ekkert vald á hreyfjingum sínum. Ástæðan fyrir því að Lalli hafði litla sem enga stjórn á líkama sínum var sú að hann lá út um allt í herberginu. Hann var orðinn risastór og hræðslan sem gagntók hann þegar hann áttaði síg á því, var ólýsanleg. Hann öskraði af öllum lífs og sálar kröftum og reyndi að toga alla skankana að sér. Um tíma hélt hann að allt í herberginu hans hefði minnkað en svo áttaði hann sig á því að það var hann sem hafði stækkað. Með erfiðismunum tókst honum að setjast upp en þá var hann byrjaður að grenja svo hátt að það var engu líkara en að tíu óperusöngkonur væru í herberginu hans. Skyndilega hætti hann að grenja og hugsaði með sér að hann hlyti að vera að dreyma. Martröðin hlaut að hafa ákveðið að stríða honum aðeins lengur þótt hann væri vaknaður. Þegar hann áttaði sig á því að svo var ekki grenjaði hann ennþá hærra þótt það væri varla hægt.

(s. 28-30)