Læknir í leit að hamingju

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1963
Flokkur: 

Úr Lækni í leit að hamingju:

Knútur Eydal staulast upp í herbergi sitt, læsir að sér og lætur sig falla niður á rúm sitt. Sá leyndardómur sem nú hefur birzt honum, gagntekur hann og fyllir hug hans allan, og aldrei hefur hann þolað slíka sálarkvöl sem nú. – Eva var þá saklaus! – Það var bróðir hennar, sem hann hafði haldið elskhuga hennar! Það hafði honum aldrei komið til hugar. Hann varð svo gersamlega blindaður af afbrýðisemi, er hann svo óvænt leit Evu, unnustu sína, í faðmlögum við ókunnugan mann, að engin heilbrigð yfirvegun komst þar að í huga hans. Ekkert annað en það, að Eva hefði haft ást hans að leiksoppi. Og honum kom ekki til hugar að gefa henni tækifæri til þess að bera fram einhverja skýringu eða afsökun. – Sjón var honum sögu ríkari á þeirri örlagaþungu stundu. Saklaus varð Eva síðan að þola heitrof hans og ískalda fyrirlintningu! Samvizkukvöl Knúts læknis var nærri óbærileg. Mikið hlýtur Eva að fyrirlíta hann innilega fyrir þessa framkomu hans. En þegar hann nú loksins veit sannleikann, hlýtur hann að ganga til fundar við Evu, skýra málið fyrir henni og biðja hana um fyrirgefningu. Hann getur þó naumast vænzt þess, að hún veiti honum fyrirgefningu, en hann verður þó samvizku sinnar vegna að bera fram þá bæn. En um annað meira gæti hann heldur aldrei beðið hana, enda myndi hún ekki geta treyst honum framar. Hve hún saklaus hlýtur að vera búin að líða mikið fyrir hann, eina stúlkan sem hann hefur elskað og getur nokkru sinni elskað. Brennheit samvizkukvölin ber tilfinningar Knúts læknis ofurliði, hann grúfir andlitið niður í koddann, sem höfuð hans hvílir á, og grætur eins og lítill drengur.

(s. 107-108)