Kvöldljósin eru kveikt

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Úr Kvöldljósin eru kveikt:

Um kvöldmatarleytið þegar dyrnar opnuðust og hún steig yfir þröskuldinn mætti hún mér með samanbitnar varir.
 Hvað er í pokunum? spurði ég formálalaust.
 Hún hrökk aðeins við þegar hún heyrði tóninn.
 Bara matur, handa okkur.
 Hefurðu hangið í matvörubúðum alla daga?
 Hún fitlaði vandræðaleg við pokana sem hún hafði lagt frá sér á gólfið en tók þá svo upp og bar fram í eldhús án þess að ansa mér.
 Ég elti hana snúðug.
 Þú hefur ekki keypt eina einustu jólagjöf. Til hvers komstu eiginlega?
 Hún sneri sér við og hallaði höfðinu eins og konur gera þegar þær tala blíðlega við smábörn.
 Veistu það, elskan mín, að ég á svo erfitt með að velja gjafir handa unga fólkinu í fjölskyldunni okkar, ég var að vona að þú myndir hjálpa mér með það þegar þú værir búin í prófinu. En ég hef auðvitað kynnt mér verðlagið og svo hef ég verið að skoða París, ég vissi að þú hefðir ekki tíma til að sýna mér borgina og af því að það er skemmtilegra til afspurnar að hafa séð eitthvað fór ég í Notre Dame, Louvre og Orsaysafnið, skoðaði Eiffelturninn, Sigurbogann og sá svo öll frægu kaffihúsin þar sem listamennirnir sátu í gamla daga. Ég vildi bara ekki tala um þetta svo þú fengir ekki samviskubit yfir því að hafa ekki farið með mér.
 Gremjan sauð í mér þegar við settumst að kvöldverði. Mamma lét móðan mása um útlendingana í borginni en ég steinþagði, sármóðguð vegna samviskubitsins sem henni hafði tekist með reynslu og kunnáttu að koma inn hjá mér.
 Þegar henni skildist að hún yrði ein um að halda uppi samræðum fór hún aðrar leiðir til að fá líf í umræðurnar.
 Ég keypti pödduúða til að drepa silfurskotturnar þínar, sagði hún óvenju glaðlega.
 Hafa þær gert þér eitthvað? stakk ég upp í hana.
 Hún skynjaði kuldann í orðum mínum og reyndi nýja aðferð.
 Jæja, elskan mín, nú er prófið á morgun, ertu ekki orðin ægilega kvíðin?
 Ég stakk bita upp í mig og ansaði henni ekki.
 En það er svo gott þegar það er búið, hugsaðu bara um það. Svo höldum við upp á það annað kvöld og höfum það huggulegt.
 Ég lagði frá mér hnífapörin og horfði fast á hana.
 Það hryggir mig að segja þér það, en svo er mál með vexti að ég og vinir mínir höfum alltaf farið út að borða saman að prófum loknum. Þannig hefur það ætíð verið og verður einnig í þetta sinn enda þótt þú hafir ákveðið annað.
 Í fyrstu kom fát á hana en á einu andartaki varð svipur hennar eðlilegur aftur. Hún klóraði sér létt á hökunni eins og hún hefði íhugað málið lengi.
 Já veistu, ég var einmitt að hugsa um það í gær að eiginlega væri það skemmtilegra fyrir þig að fara út með vinum þínum eftir prófið. Við getum alltaf borðað saman, þú og ég.
 Ég harmaði að hafa ekki getað sært hana og skellti hurðinni óþarflega fast á eftir mér þegar ég hvarf aftur til herbergis míns. Ég sökkti mér ofan í fræðin en heyrði hana samt sýsla hljóðlega frammi í eldhúsi.
 Hún hafði ætlað að þvo grænu blússuna sína, hafði hún sagt.

(s. 94-96)