Kvikasilfur

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Kvikasilfri :

Stofnun svona flugfélags var mikið snilldarbragð. . .
 Einhvenveginn hitti það beint í þjóðarhjartað; sjaldan hefur verið sett á laggirnar fyrirtæki sem hefur strax frá fyrstu dögum notið meiri vinsælda. Loftsýn var eiginlega óskabarn þjóðarinnar þarna fyrstu misserin. Kúnnarnir voru ánægðir, og reyndar allir íbúar landsbyggðarinnar, að fá tíða og trausta vöruflutninga; fiskibátar voru stopp af því það vantaði veiðarfæri, stórar verksmiðjur rak uppá sker vegna skorts á varahlutum, bændur vantaði áburð, og allstaðar komu flugbátarnir frá Loftsýn til skjalanna; komu með gömlu og vinalegu vélarhljóði utan úr blámanum og lentu með tígulegum gusugangi; og þegar flugbátarnir tóku sig á loft í sólarveðri fylgdi fagurlitur regnbogi í slóð þeirra á haffletinum. Sjúklingar þurftu að komast á spítala, konur í barnsnauð; líka í slíkum tilvikum komu sjóflugvélar Loftsýnar til hjálpar, og þótt ekki væru þær ætlaðar til mannaflutninga mátti svona skjóta þingmanni og þingmanni milli fjarða þegar þeir áttu leið um kjördæmi sín. Það var stjórnmálamönnum til álitsauka og bar vel í atkvæðaveiði ef þeir sáust ferðast með hinum vélknúnu vorboðum, og auðvitað spillti það ekki fyrir flugfélaginu að halda góðri vináttu við ráðamenn landsins. Verðið hjá Loftsýn var furðu lágt, enda höfðu þeir fengið vélarnar ódýrt; en menn voru ekki að hugsa um það, heldur að einhver skyldi hafa verið svo sniðugur að finna leið til að nota þessa gömlu og rómantísku farkosti landi og lýð til heilla. Blaðamenn sátu um að fá að fljúga með flugbátunum, birtu svo um það myndskreyttar greinar, sjónvarpsfréttir fjölluðu ítarlega um Loftsýn og gömlu flugbátana, og litmynd af þeim var á forsíðu heimilisblaðsins Vikunnar sem blasti við úr öllum sjoppugluggum. Bárður varð að ráða þrjá nýja flugmenn til að hægt væri að nýta báðar vélarnar til fullnustu, og nýju flugmennirnir urðu allir meðeigendur, það var hugmynd Bárðar; hann átti sjálfur 51% í félaginu, flugmennirnir fjórir skiptu með sér afgangnum og voru fyrir vikið ólíklegir til að hefja verkföll eða vera með óbilgjarnar kaupkröfur. Bárður var forstjórinn, búinn að taka á leigu gamlan herbragga vestan í Öskjuhlíðinni, alveg niðri við flugvöllinn, og þar var lager fyrirtækisins og skrifstofa: hann sjálfur sat við símann frammi, með svarta hattinn á höfðinu, blýant bakvið eyrað, AA-bænina innrammaða fyrir ofan hausinn og lappirnar upp á borðinu. Gamlir kunningjar voru komnir til starfa: Kobbi kalypsó hinn þekkti dægurlagaraulari var lagerstjórinn, Sigtryggur Sigurðsson bifreiðarstjóri var yfirmaður bílaflota fyrirtækisins: sendiferðabílanna tveggja hans Bárðar, sem voru á sífelldum þönum hingað og þangað um bæinn að sækja vörur sem áttu að fara út á land með hraði; togarajaxlarnir Garðar og Glóblesi í öllu tilfallandi. En stjórnarformaður og heiðursforstjóri fyrstu mánuðina var Jóakim Ísfeld hdl. Það var náttúrulega traust að hafa lögfræðing einhverstaðar á pappírum fyrirtækisins, ekki bara lukkuriddara einsog Bárð Killian, en fyrst og fremst var þetta í heiðursskyni við hinn roskna lofðung lagakrókanna, hann átti sæmdarheitin skilin. Hann var orðinn eldgulur á hörund, kinnfiskasoginn og toginleitur, hættur störfum, var það fullljóst að hann átti aðeins skammt ólifað. En hann kom í fyrirtækið úti á flugvelli minnst annan hvern dag og þá bruggaði Kobbi lagerstjóri handa honum koníaksblandað kaffi og hann var látinn niður í fínustu mublu fyrirtækisins, risavaxinn leðurstól fornan sem Bárði hafði einhverstaðar áskotnast. Svo gluggaði hann í pappíra, kaupsamninga, skrifaði undir, og kjaftaði við menn sem komu og fóru. Og hinn alþýðlegi bragur sem þarna var á öllu vakti líka athygli; Bárður sjálfur kepptist við að vera óvanalegur forstjóri, tók sér Sigfús bróður sinn til fyrirmyndar í því, lét alltaf mynda sig með kassa í lúkunum, að lesta vélarnar, setja á þær bensín, var fluggreifi í rónafrakka og með svartan hatt, sendi Kobba Kalypsó og togarajaxlana inn á fínar skrifstofur. Og þetta varð ekki til að minnka vinsældir Loftsýnar, Bárður og félagar voru fulltrúar fólksins í atvinnulífinu, auðmjúkir þjónar fólksins, Hrói Höttur og kappar hans. . .

(s. 43-45)