Krossfiskar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2018
Flokkur: 

Um bókina

Daníel býr einn í íbúð sem móðir hans á. Hann er hættur í háskólanum og hefur hvorki efni á mat né eldsneyti.

Dag einn fær hann tvö símtöl, eitt frá fyrrverandi skólafélaga og annað frá lögreglunni, sem hrinda af stað dularfullri atburðarás.

Krossfiskar er spennuþrungin skáldsaga um átök sálarinnar – um mörk góðs og ills, vonar og vonleysis.

úr bókinni

Gunna hló. Þær Júlía heilsuðust.

- Mikið er ég fegin að þú sért kominn, sagði Gunna. - Ég hef haft svo miklar áhyggjur af þér, Daníel. Þetta vesen er búið að gera mig gráhærða. Hvað er aftur langt síðan þið hættuð saman?

- Ár, sagði Júlía.

- Hvað er þetta, nákvæmlega? spurði ég.

- Hvað?

- Þessi skírn.

- Var Júlía ekki búin að segja þér frá því?

- Ég ákvað bara að bíða með það þar til við kæmum.

Presturinn gekk til okkar og nú fannst mér við vera að hittast í fyrsta skipti. Ósjálfrátt rétti ég fram höndina. Við heilsuðumst aftur.

- Jæja, sagði hann. - Nú skulum við koma inn á bað.

Ég settist á koll í miðju baðherberginu. Hvítar flísar þöktu gólfið og hálfa veggina. Á borðinu við vaskinn var margvíslegur spítalabúnaður: rör, kútar, súrefnisgrímur og fleira, öllu raðað snyrtilega upp. Gunna sótti sér koll úr eldhúsinu og tyllti sér við hliðina á vaskborðinu. 

- Ég læt renna í baðkarið á meðan við tölum, sagði presturinn og skrúfaði frá krananum. - Ertu skírður? Til kristinnar trúar, meina ég.

- Nei, sagði ég. - Til hvers er allt þetta dót?

- Þetta hér er hjartastuðtæki. Úr því liggja snúru í tvo plástra sem fara á bringuna á þér og ef þú dettur úr takti sér tækið um að kippa þér í gang.

Hann þagði og beið eftir að ég segði eitthvað. En mér datt ekkert í hug til að segja. Ég horfði bara á hann. 

- Engar áhyggjur, sagði hann. - Þetta er skírn, ekki aftaka.

Presturinn hló að sjálfum sér. Hann horfði á Gunnu og Júlíu eins og hann biði eftir að þær tækju undir. Þær gerðu það ekki, en presturinn kippti sér ekki upp við það. 

- Þessi skírn fer þannig fram að ég dýfi höfðinu á þér ofan í vatnið þar til þú missir meðvitund. Þegar það gerist, mun ég lífga þig aftur við. Hér er súrefniskúturinn, hér er belgur og gríma, hér er kokrenna, þetta tæki getur sogað vatn upp úr lungunum, ef til þess kemur, og ef það lokast fyrir öndunarveginn er ég með þetta fyrirbæri hér til að opna hann, sagði presturinn og veifaði framan í mig einhverju sem líktist málmklemmu. - Hér er svo adrenalínsprauta ef þú færir í hjartastopp. Þú fengir ekki betri aðhlynningu á sjúkrahúsi, ég get lofað þér því.

- Og ég verð hér til að hjálpam sagði Gunna.

- Munurinn á okkur og sjúkrahúsum er að læknar laga ekki tilvistarleg vandamál. Og þó að þetta kallist skírn, er þetta í raun bara meðferð við hræðslu. Kirkjan er langt frá trúarbrögðum í hefðbundnum skilningi.

(126-128)