Kristján Eldjárn forseti : Ævisaga

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991


Af bókarkápu:

Í hugum Íslendinga er ljómi yfir minningu Kristjáns Eldjárns. Hann sat á forseta stóli í tólf ár og mótaði æðsta embætti þjóðarinnar í anda nýrra tíma. Honum tókst að sameina íslenskan alþýðleika og látlausa reisn í þeim mæli að aðdáun vakti.

Menn minnast þó ekki síður vísinda- og fræðimannsins Kristjáns Eldjárns sem kunni flestum betur að miðla fróðleik sínum til fjöldans. Í starfi þjóðminjavarðar lagði hann Þjóðminjasafn Íslands að kröfum nútímans, og margar merkustu fornleifarannsóknir hér á landi tengjast starfsævi hans á safninu. Kristján varð snemma vinsæll fyrir bækur sínar, fyrirlestra og sjónvarpsþætti, enda var það metnaðarmál hans að fjalla um forleifar af nákvæmni og skýrleika, og segja svo fjörlega frá að áheyrendur létu heillast. Með þann metnað að leiðarljósi tókst honum öðrum fremur að gera íslenskar þjóðminjar að raunverulegri þjóðareign. Allt þetta varð til þess að í forsetakosningunum 1968 var hann kjörinn með meiri yfirburðum en áður höfðu þekkst.

Gylfi Gröndal ritar sögu Kristjáns sem er viðamesta verk hans til þessa. Hann styðst við miklar og fjölbreyttar heimildir, bæðir ritaðar og munnlegar, þar á meðal dagbækur Kristjáns og minnisblöð sem gera frásögnina persónulega og trúverðuga. Hér er dregin upp áhrifamikil mynd af alþýðumanni og heimsborgara, manni sem ekki sá neina þversögn í því fólgna að hlúa að arfi norðlenskra formæðra sinna og forfeðra um leið og hann tileiknkaði sér það dýrmætasta í menningu erlendra þjóða. Kristján Eldjárn ræktaði garð sin af alúð, sótti ótraurður fram þótt á móti blési, og var sá lánsmaður að geta leitt erfið mál og flókin á gæfuveg.