Kópamaros: Skáldsaga um óunnin sigur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1977
Flokkur: 

Úr Kópamaros:

6. mynd
Kvöldið áður en þau mæðginin fóru norður kom faðir drengsins til að kveðja. Hann stóð þarna, gestur í húsinu, þrekvaxinn, næstum sköllóttur með dökkan hárkraga. Hann hafði breytzt, var kominn með skegg á efti vörina.
Drengurinn hafði ekki séð föður sinn lengi, ekki síðan fyrr um sumarið þegar litli bróðir grét ennþá.
Þetta var kveðjustund. Þau ætluðu að leggja af stað næsta morgun og drengurinn hlakkaði til. Ferðatöskurnar stóðu tilbúnar frammi í gangi, það var aðeins eftir að setja niður rúmfötin, og svo að taka til smádót í litla handtösku.
Faðir hans var kominn til að kveðja hann.
Fullorðna fólkið settist niður og Nanna kom með kaffi. Samræðurnar við borðið voru slitróttar og stundum komu langar þagnir. Það var eins og enginn hefði áhuga á neinu umræðuefni. Kristbjörg og Ingimar töluðu mest og faðir drengsins skaut inn orði öðruhverju, móðir hans þagði.
Og loks voru allir staðnir upp og farnir að segja jæja, þegar Kristbjörg sagði: Jæja Snorri minn ætlaru ekki að kveðja hann pabba þinn.
Jújú, sagði drengurinn og kunni ekki að kveðja.
Faðir hans tók um axlir honum og þeir gengu hlið við hlið fram í ganginn. Fólkið stóð álengdar.
Jæja Snorri minn, sagði faðir hans og var hás. Ve-vertu þá sæll. Það verður kannski ekki langt þangað til við sjá-sjáumst aftur.
Svo beygði hann sig niður og kyssti hann á kinnina og drengnum brá þegar hann fann snarpa skeggrótina strjúkast við sig.
Og faðir hans reis upp og horfði í augu hans og tók í höndina á honum, drengurinn vissi ekki hvað hann átti að gera.
Þú, sagði faðir hans. Þú ma-manst hvað þú heitir.
Já, sagði drengurinn og tók þetta sem spurningu. Já, sagði hann lágt, víst mundi hann hvað hann hét. Og svo var faðir hans farinn án þess að segja fleira, gekk niður tröppurnar og hvarf fyrir húshornið, og Kristbjörg lokaði dyrunum, og það var eins og fólkið varpaði öndinni léttar.
Eitt andartak fannst drengnum eins og hann langaði til að hlaupa út á eftir föður sínum, en stóð kyrr, auðvitað gat hann ekki hlaupið út, og hann fór að skæla.
Fólkið hélt að hann gréti vegna þess að hann saknaði föður síns. Hvernig átti það að hafa hugboð um allar þær tilfinningar sem hrærðust í einum litlum dreng, sem kann engin skil á þeim sjálfur?

(s. 82-84)