Konurnar á Brewster Place

Höfundur: 
Þýðandi: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986

Um þýðinguna

The Women of Brewster Place eftir Gloria Naylor í þýðingu Hjartar.

Konurnar á Brewster Place eru sterkar og óbifanlegar þrátt fyrir breyskleika sína, en karlmennirnir koma og fara, börnin vaxa upp eins og illgresi og hverfa. Ævi þeirra er ást og þjáning, hlátur og sorg og draumar sem ekki rætast. Úr vef sínum spinnur höfundurinn heilsteypt, óvenjulegt og ógleymanlegt verk.

Úr Konunum á Brewster Place

- Stattu ekki þarna eins og þú sért einhver sakleysisgyðja sem allir eru að ofsækja, sagði Soffía hásri röddu. – Ég skal segja ykkur, hvað ég hef séð!
Hún gaut illkvittnislega út undan sér augunum, meðan viðstaddir biðu eftir því, hvað kæmi næst, og þögnin var djúp eins og í réttarsal.
- Ég ætlaði ekki að fara að tala um þennan viðbjóð, en ég neyðist víst til þess. Hún sleikti á sér þurrar varirnar með tungunni og horfði á Lorraine með samankipruð augun. – Þið gleymduð að draga rúllugardínurnar ykkar fyrir í gærkvöldi, og ég sá ykkur báðar tvær!
Það hefði mátt heyra saumnál detta í stofunni.
- Þarna stóðstu í baðherbergisdyrunum, rennblaut og allsnakin, og kunnir bersýnilega ekki að skammast þín …
Þögnin var orðin óþægilega þrúgandi.
- Og kallaðir í hina og baðst hana að leggja frá sér bókina og rétta þér hreint handklæði. Stóðst þarna berrössuð í baðherbergisdyrunum. Ég sá það – ég sver að ég sá það!
Allir ætluðu að kafna úr súrefnisskorti, meðan þeir biðu eftir svari Lorraine, en áður en stúlkunni vannst tími til þess að opna munninn, barst rödd Bens óvænt yfir öxlina á henni eins og hægur goluþytur.
- Þú kemur sennilega alklædd úr baðinu, Soffía. Það hlýtur að vera sjón að sjá fyrir Jess.
Hláturinn sem allir ráku upp varð þeim svo mikill léttir að þeim vöknaði um augu. Öll stofan tók bakföll og grét af gleði og þakklæti í garð Bens fyrir að geta nú aftur dregið andann léttar. Gífuryrði Soffíu köfnuðu í öskrunum, hóstunum og klappinu á bakið sem nú tóku völdin.
Lorraine fór fram og greip í stigahandriðið. Hún kyngdi galli og var alveg að því komin að selja upp.

(s. 158-159)