Konungsbók

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Um bókina:

Konungsbók gerist að mestu í Kaupmannahöfn árið 1955 og tengist leyndarmáli sem snertir helsta dýrgrip Íslands, Konungsbók Eddukvæða.
Valdemar, ungur og bláeygur íslenskufræðingur, heldur til náms í Danmörku og finnur þar fyrir landa sinn, gamlan prófessor, sem er heillum horfinn enda býr hann yfir skelfilegu leyndarmáli sem tengist ævafornri höfuðgersemi íslensku þjóðarinnar, Konungsbók Eddukvæða. Leyndarmálið leiðir prófessorinn og lærisvein hans í mikla háskaför um þvera Evrópu – inn í skjalasöfn og grafhýsi, fornbókasölur og fátækrahverfi – þar sem mannslíf eru léttvæg fundin.

Úr Konungsbók:

Ég sat eftir og hugsaði um rifrildið á milli prófessorsins og yfirmanns deildarinnar. Gat það verið að hann væri lentur í ónáð? Það var sjálfsagt og algengt að fræðimenn, prófessorar og aðrir, fengju handrit lánuð og jafnvel voru til sögur af stúdentum í gamla daga sem gleymdu handritum á knæpum eftir að hafa dottið í ölið. Ég gat ekki ímyndað mér neitt slíkt henda prófessorinn.
Ég hitti hann aftur rúmri viku eftir upphlaupið á Hvít og innbrot okkar í hið nýja Árnasafn, ef innbrot skyldi kalla, hann var þó með lykil. Ég var búinn að koma mér sæmilega fyrir, byrjaður á náminu af fullum krafti og farinn að kynnast stúdentum við háskólann bæði íslenskum og erlendum. Við vorum nokkrir Íslendingar sem byrjuðum við skólann þetta haust. Tvö höfðu siglt strax eftir menntaskólann og einn kannaðist ég við úr háskólanum heima þótt ég þekkti hann ekki vel. Við byrjuðum að halda hópinn eins og gerist á meðal Íslendinga í útlöndum, ég tala ekki um þá sem eru saman í námi, og ákváðum að hittast alla fimmtudaga og fá okkur súpu og kannski eina krús á Litla apótekinu við Kanúkastræti. Ég hafði ekki talað við neinn um ævintýri okkar prófessorsins kvöldið sem hann hitti wagnerítana, skrifaði ekki einu sinni frænku um það heim enda var það fjarri mér að vilja valda henni óþarfa áhyggjum. Ég átti í sífellt meiri erfiðleikum með að skrifa henni um prófessorinn sem hún hafði í svo miklum hávegum og reyndi sem mest að komast hjá því og skrifa frekar um háskólalífið og veðrið. Hún var hins vegar forvitin og spurði um hann, hvort hann kæmi ekki vel fram við mig og þar fram eftir götunum.

(82)