Konan sem elskaði fossinn

konan sem elskaði fossinn
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2020
Flokkur: 

Um bókina

Sigríður í Brattholti (1871–1957) er einn kunnasti náttúruverndarsinni Íslandssögunnar. Hún bjó alla sína ævi í nágrenni við Gullfoss og þegar upp komu hugmyndir um að virkja fossinn hóf hún ein og óstudd baráttu gegn þessum áformum, baráttu fyrir málstað sem hún var tilbúin að fórna lífinu fyrir.

Um áratugaskeið talaði Sigríður máli fossins og vildi að hann fengi að „flæða af hamrinum … óhaggaður af höndum manna“. Í fyrstu var það fyrir daufum eyrum en smám saman jókst samúðin með málstað hennar. Samhliða þessu þurfti Sigríður að glíma við erfiðleika á heimili sínu og í einkalífi.

Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur hefur um árabil rannsakað ævi og baráttu Sigríðar í Brattholti. Árið 2012 sendi hún frá sér sögulegu skáldsöguna Ljósmóðirin sem var  tilnefnd til Fjöruverðlaunanna.

úr bókinni

Tómas var steinsofandi næsta morgun þegar heimilisfólkið reis á fætur og borðaði morgunskattinn. Allir fóru út til gegninga nema Gunna, Einar litli og hjónin á bænum. Sigga stjórnaði öllu úti við þegar pabbi hennar var ekki viðlátinn og sú regla gilti jafnvel þótt Tommi vinnumaður væri hjá þeim. Það hafði einhvern veginn æxlast þannig frá því hún var ung og þótt hún viðurkenndi það ekki fyrir nokkrum manni, þá var hún löngu byrjuð að líta á sig sem bóndann á bænum. Hefði hún fæðst drengur hefði enginn efast um hæfni hennar. Alltaf hafði verið talað um Þórð bróður hennar sem verðandi bónda en hann var farinn að heiman. Nú var hann sjómaður í Reykjavík en dreymdi um að fá vinnu við smíðar, því allt lék í höndum hans. 

Um eftirmiðdaginn sneru þau aftur inn, banhungruð eftir dagsverkið. Gunna kom með fulla aska af kjöti og kartöflum í baðstofuna og þau mötuðust í þögn. Sigga gjóaði augunum á föður snn sem virtist vera búinn að jafna sig eftir nóttina.

- Þú varst heppinn að ég var vakandi í nótt þegar þú komst heim, sagði hún þegar askurinn var orðinn tómur.

- Já, ég var í miklum fögnuði á vatnsleysu, hefði sennilega átt að gista en vildi það ómögulega, sagði Tómas. - Við Dóri gamli vorum að halda upp á að við leigðum Þorleifi fossinn. Þegar samningurinn tekur gildi árið 1912 getum við byggt hlöðu.

Sigga sagði ekki neitt.

- Brattholtsheimilinu er borgið í bili og ekki fer fossinn þinn neitt, hélt Tómas áfram og hló í skeggið.

- Hvað ætlar Þorleifur að gera við fossinn? spurði Sigga.

- Hann ætlar að virkja hann til iðnreksturs. Nú geta menn búið til áburð á túnin með lofti og rafmagni. Þá þarftu ekki að bera skít á tún lengur, dóttir góð, heldur færðu áburð frá verksmiðjunni og grasið vex margfalt hraðar. Þorleifur vinur minn, sem er góður og gegn Íslendingur, ætlar að fara í þessar framkvæmdir. Áburður búinn til úr lofti og rafmagni úr Gullfossi okkar, alveg ótrúlegt!

- Hvað á þá að gera við allan skítinn? spurði Palli.

- Ja, það er góð spurning, drengur minn, góð spurning, muldraði Tómas í skeggið og hló. - Mig dreymdi einmitt mikinn skít í nótt og það er fyrir ríkidæmi!

Sigga sagði ekki neitt heldur fór að spinna svo óðslega á rokkinn sinn að bandið slitnaði aftur og aftur. Það var í henni beygur eftir ummæli föður hennar og hún róaðist ekki fyrr en hún gekk út og að Gullfossi sem var í klakaböndum. Hann var jafn stórkostlegur í ljósaskiptunum undir þungbúnum himni að vetri til og hann var þegar tvöfaldir regnbogar skreyttu kraftmikinn beljandann að sumri. Fyrir henni var þetta heilagur staður og hún mátti ekki til þess hugsa að menn spilltu honum.

(s. 107-109)