Komdu að kyssa

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Úr Komdu að kyssa:

Þær áttu ekki annarra kosta völ. Þær töltu með kerrurnar heim að húsinu og þar fór allt eins og áður. Garðar kom kössunum fyrir og sagði þeim að fara á Faxabrautina. Alla leiðina voru þær að gjóa augunum út um allt eins og kassarnir væru skyndilega gegnsæir og lögreglan kæmi keyrandi á eftir þeim með sírenurnar í gangi.
Við vitum ekkert, sagði Bogga og var hvöss á svip.
Nei, ekkert, sagði Elín.
En það var sama hvernig hún leit á málið, henni leið eitthvað svo illa í brjóstinu. Aldrei hafði kerran verið svona þung. Kassarnir hlutu að vera stærri en venjulega. Aftur og aftur sagði hún við sjálfa sig að allt væri í lagi og björtu hliðarnar væru þær að hún hefði ekki hugmynd um hverjir drykkju þetta bölvað brennivín og hún gæti keypt sér allt mögulegt sem hana langaði í fyrir peninga sem hún hefði fyrir húshjálp.
Henni kæmi hreint ekkert við hverjir væru að drekka. Sama væri henni þótt strákarnir smökkuðu það um helgar og þeir gátu nú verið bæði fyndnir og skemmtilegir ef sá gállinn var á þeim. Svo hafði Fiddi frændi sagt að Íslendingar hefðu bruggað frá ómunatíð. En fegnar voru þær þegar kassarnir voru horfnir úr kerrunum.

(s. 110-111)