Knáir krakkar: íslensk barnasaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982
Flokkur: 

Myndir: Auður Eysteinsdóttir.

Úr Knáum krökkum:

 Þegar þau koma heim að húsinu kemur í ljós, að Hrói hefur gleymt að taka með sér lykil og húsið er læst. Þau eru í þann veginn að snúa frá til að fara heim til Lóu, þegar þau heyra feikna hávaða innan frá. Hrói leggur frá sér eggin og þau hlaupa að húsinu og kíkja inn um glugga til að sjá hverju þetta sæti.
 Þau trúa varla eigin augum. Stórt, svart flykki hendist um húsið fram og aftur. Það þýtur gegnum loftið og á gluggana og gargar með ærandi hávaða.
 Er þetta draugur? stynur Lóa.
 Nei, er þetta ekki fugl? spyr Búi.
 Það er enginn fugl svona svartur nema krummi og hann krunkar en gargar ekki svona, segir Hrói.
 Ég er viss um, að þetta er draugur, segir Lóa.
 Eigum við ekki að ná í pabba þinn? segir Hrói við hana. Hann getur kannski opnað hurðina svo hægt sé að reka þetta út, hvað sem það nú er.
 Ég held að það væri nær að ná í prestinn, svaraði Lóa náföl í framan.
 Þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Rétt í þessu ekur bíllinn með pabba og mömmu Hróa í hlað. Börnin þjóta að honum og æpa, hvert sem betur getur.
 Hvaða læti eru þetta? spyr Áki. Það er stórt svart flykki inn í húsinu, sem þýtur um allt hrópa Búi og Hrói hvor upp í annan.
 Það er draugur, það er svartur draugur, veinar Lóa.
 Áki hefur engin orð. Lokar bílnum og hleypur heim að húsinu. Hann opnar dyrnar og fer inn. Búi og Hrói fara á eftir honum með hálfum huga. Inni er ljót aðkoma. Pottar með blómum hafa sópast á gólfið og moldin liggur úti um allt.
 Svartir flekkir eru um veggi og gólf og flykkið mikla þyrlast um með argi og gargi.
 Svei mér þá, ef þetta er ekki húsönd, segir Áki. Við verðum að koma henni út.
 Þeir opna alla glugga og allar dyr. Öndin er yfir sig hrædd og flýgur á hvað sem fyrir er. Að lokum tekst þeim þó, að koma henni út úr húsinu.
 Óli og Dóri sitja inn í bílnum, því að mamma vill ekki sleppa þeim út fyrr en séð er fyrir endann á þessu. Þeir klessa nefinu út í rúðuna til þess að missa ekki af neinu. Allt í einu sjá þeir svarta hlussu þeytast út úr húsinu með miklum hraða og litlu munar að hún hendist á rúðuna, sem þeir eru að horfa út um. Á síðustu stundu beygir hún þó frá.
 Draugurinn, æpir Lóa og hleypur aftur fyrir bíl. Svo hverfur draugurinn út í blátt ómælið og Áki kemur út í dyr og býður þeim að ganga inn.

(s. 25-26)