Kattasamsærið

Kattasamsærið
Útgefandi: 
Staður: 
Selfoss
Ár: 
2012
Flokkur: 

um bókina

Kötturinn Petra Pott glímir við þann vanda að fólkið hennar fær öðru hvoru þá flugu í höfuðið að hún eigi að fara af heimilinu. En þá kemur sér vel að eiga góða vini sem hafa ráð undir rifi hverju. 

úr bókinni

Þegar Petra vaknaði eldsnemma morguninn eftir heyrði hún að pabbinn og mamman voru að tala saman. Hún lagði auðvitað við hlustir því flest mál sem upp komu á heimilinu voru á einn eða annan hátt um hana - eða það fannst henni.
   „Nú fer ég með köttinn eftir hádegi á morgun. Ég er búinn að segja stelpunni að á morgun fari Petra Pott í sveitina,“ sagð pabbinn og smurði sér brauðsneið.
   „Gott, það verður ákveðinn léttir,“ sagði mamman og horfði út um gluggann.
   „Já, það verður sko léttir,“ sagði pabbinn drjúgur. Hann tyllti sér örlítið á tá og strauk á sér magann. Inni í sér leið honum pínulítið eins og hann hafi verið að vinna einhvern leik.
   „Mikið rosalega er gott veður úti, það eru 15 stig á mælinum og enn er klukkan ekki nema rétt rúmlega átta,“ sagði mamman og ljómaði.
   „Það er gott að vita það,“ hugsaði Petra Pott og hagræddi eldspýtustokk í skjóli við gamlan lampa í stofuglugganum.
   Um hádegi komu konur úr nálægum húsum í heimsókn og settust út á pall og dásömuðu veðrið og drukku kaffi og möluðu meira enn allar ítalskar kaffivélar til samans.
   „Óttalegt blaður er þetta,“ hugsaði Petra Pott og rölti svo lítið bar á út í garðinn og kom eldspýtustokknum fyrir undir veröndinni.
   „Hvenær ætlið þið að losa ykkur við þennan kött?“ hvein í einni kerlingunni. Petra Pott gaf henni illt auga. Þetta var konan sem átti tölvuleikjastrákinn.
   „Æ, hún er nú svo sæt, þið ættuð bara að leyfa henni að vera,“ sagði þá önnur. Það var sú sem átti hundinn Lúsíus.
   „Þetta er góð kona,“ hugsaði Petra og leit blíðlega á hana þar sem hún sat og drakk kaffi og át súkkulaðirúsínur. Hún henti einni rúsínu til Petru sem át hana samstundis og kjamsaði á henni og geiflaði sig heil ósköp í framan til þess eins að sýna þessari konu að hún kynni að meta gjöf hennar. Reyndar fannst Petru Pott súkkulaðirúsínur mesta óæti og súkkulaðið alveg sérstaklega vont.

(33-34)