Kátt er í Krummavík

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1981
Flokkur: 

Myndir eftir Sigrúnu Eldjárn

Úr Kátt er í Krummavík:

 - Ég þori víst, sagði Halli.
 - Halli aumingi, Halli huglausi, söng Danni.
 - Víst þori ég, sagði Halli og tók undir sig stökk heim að fjósinu.
 Krakkarnir hlupu á eftir með Danna í fararbroddi.
 Halli losaði hálsböndin af öllum kúnum, en af því fjóshurðin var aftur, áttuðu þær sig ekki á að þær voru lausar og voru kyrrar á básunum.
 - Opnið nú, kallaði Halli og Danni opnaði upp á gátt.
 Kýrnar uppgötvuðu brátt að frelsið var utan dyra. Þær ruddust af stað hver um aðra þvera, baulandi og berjandi um sig hölunum. Danni skaut sér fljótlega út um dyrnar, honum leist ekki á þessi læti, voru skepnurnar allar orðnar snarbrjálaðar? Ekki tók betra við þegar þær höfðu ruðst út um dyrnar, þar sem þær stóðu stundum fastar, því tvær og þrjár þurftu að komast út í einu.
 Nú settu þær upp halana og hentust af stað baulandi og bölvandi, stangandi hver aðra og létu eins og þær hefðu gleymt að þær voru fullorðnar, jafnvel gamlar og stirðar kýr. Það brakaði í þeim, eins og þær væru að liðast í sundur.
 Danni hafði ekki haft vit á að forða sér upp á fjósvegginn eins og hinir krakkarnir. Nú fannst honum endilega að allar kýrnar væru að elta hann og tók til fótanna heim að bænum. Kýrnar voru ekkert á því að láta strákinn sleppa svona auðveldlega, hafi þær þá á annað borð tekið eftir að hann var tvífættur strákur en ekki ferfættur kálfur.
 Danni hljóp niður allt tún, því hann komst ekki heim að húsinu fyrir einni kúnni sem hljóp á hlið við hann, auðsjáanlega til þess að hann kæmist ekki inn. - Hjálp, hjálp! hrópaði hann. Nú voru allar harðsperrur gleymdar og hann hljóp hraðar en hann hafði nokkru sinni gert, því nú var hann að bjarga lífi sínu. Allt fólkið kom þjótandi út og gat ekki að sér gert að hlæja þegar það sá hinn æðisgengna flótta.
 Danni nálgaðist nú tjörnina óðum og þar eygði hann loks undankomuleið. Hann þaut því beint af augum út í vatnið svo gusurnar gengu yfir hann allan. Þegar hann snéri sér við, út í miðri tjörn til að gá hvað óvininum liði, sá hann að hann var aleinn.
 Kýrnar hlupu út í túnið í áttina að Skeljavík, með miklum látum og rassaköstum. Hefðu ekki Óli og Gréta verið að koma úr vinnunni og snúið þeim við, hefðu þær áreiðanlega farið í kaupstaðarferð.
 Kýrnar róuðust brátt, fóru að haga sér skikkanlega og reyndu að finna sér grastopp að bíta, nýgræðingurinn var svo sætur í munni. En afi róaðist ekki eins fljótt og kýrnar, hann var bálvondur.

(s. 52-54)