Kata

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2014
Flokkur: 

Um bókina:

Menntaskólastelpa fer á ball og hverfur sporlaust. Mamma hennar er fullviss um að hún sé á lífi en hefur ekkert í höndunum. Nema orðljót bréf með órekjanlegri undirskrift. Nema dúkkuhúsið. Þangað til nafnlaus maður hringir í lögregluna og tilkynnir um lík í gjótu utan við borgina.

Úr bókinni:

Hún hafði velt upp öllu sem hefði mögulega getað komið fyrir Völu. Yfirleitt tók hún ekki eftir fantasíunum fyrr en á leiðnni út úr þeim, hjartað æðandi og lófarnir þvalir: Vala stjórnlaus og ráfandi um á meginlandinu – í Amsterdam eða Berlín eða Prag; maskarinn klesstur, klædd stuttu pilsi og rifnum netsokkabuxum; á kafi í eiturlyfjum, að sniffa kókaín, háð heróíni, dauð inni á klósetti með nál hangandi í lærinu; eða leiksoppur manna sem höfðu rænt henni, pyntað hana, selt líkama hennar eða drepið hana og tekið upp á myndbönd sem seld voru á svartamarkaðnum á netinu.

Stundum var fantasían tempruð af orðum lögreglunnar. Manndráp, til dæmis, þótti fjarstæðukennt. Vala átti enga óvini og af rannsókn á ballinu var ekkert sem benti til aðkomu ókunnugra. Málið hafði ekki enn verið rannsakað undir þeim formerkjum þar sem engin gögn um slíkt lágu fyrir, engin vitni og engir grunaðir. Hins vegar var sjálfsmorð ekki útilokað, sem Kötu heyrðist á lögreglunni að þýddi líklegt, en ekkert hafði fundist þegar helstu sjálfsmorðsstaðir suðvesturhornisins höfðu verið gengnir.

Um leið og löggan heyrðu af „ósætti“ milli Völu og mömmu hennar viðruðu þeir kenninguna um að hún hefði stungið af að heiman og myndi skila sér seinna; þegar við bættist að Vala hafði látið sig hverfa áður – í sólarhring, og að ástandið á heimilinu hefði eitt sinn verið „erfitt“ í nokkra mánuði, álitu þeir kenninguna allt að því staðfesta; hún hefði lagst í fyllerí eða jafnvel eitthvað sterkara með „einhverjum eldri strák“, það væri algengt. Önnur útgáfa af þessu var sú að Vala hefði farið úr landi með útlenskum togara eða skipi við höfnina, munstrað sig um borð eða átt þar leynilegan kærasta og fylgt honum – sem stangaðist með öllu á við framburð bekkjarsystkina hennar og vina úr kirkjunni.

Kata trúði engu af þessu, ekki í hjarta sér. Eftir samtöl þeirra Völu mánuðina áður en hún hvarf var óhugsandi að Kata hefði ekki tekið eftir neinu, ef eitthvað mikið stóð til. Hún þekkti dóttur sína. Áður en hún hvarf var samband þeirra orðið svo sterkt og náið – eins og það átti alltaf að vera – að það var óhugsandi að hún fyndi ekki ef þráðurinn á milli þeirra slitnaði. – Hún var enn á lífi. Kata fann fyrir henni í hverri frumu líkamans og ekkert sem lögreglan segði, og ekki heldur sjúkt ímyndunarafl hennar sjálfrar fengi hana til að trúa öðru.

(33-4)