Karlsvagninn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 
Af bókarkápu:

Þegar Gunnur vaknar að morgni uppgötvar hún að þjófar hafa farið ránshendi um hús hennar meðan hún svaf. Í uppnámi ákveður hún að leita öryggis í sumarbústað sínum fyrir austan fjall en neyðist á síðustu stundu til að taka með sér erfiðan gest. Hvað geta virtur geðlæknir og óöguð unglingstúlka gert sér til afþreyingar á afskekktum stað í frosti og snjó? Þær geta til dæmis heimsótt hús minninganna og beitt ímyndunaraflinu, tækinu sem hefur skilið manninn frá dýrunum frá upphafi vega ...

Úr Karlsvagninum:

Dagskíman brýst inn um rifuna til hliðar við rúllutjöldin, þann part sem ég næ aldrei að birgja áður en ég fer að sofa. Ég sem ann íslensku sumarnóttunum get ekki sofnað er minnstu skímu leggur inn til mín. Á veturna þegar myrkrið svolgrar í sig birtuna hef ég sama háttinn á, rúlla niður dökkum tjöldum, hengi svart lak á tvo nagla yfir þau og dreg svo loks röndótt og rósótt gluggatjöldin fyrir.
Samt leggur skímuna inn um rifuna, það er kominn dagur og ég hef ekkert sofið, eða hef ég blundað af og til án þess að verða vör við það? Hef ég hugsað eða hefur mig dreymt?
Ég læt aftur augun og hugsa um óraunveruleikann á múrnum, þegar ég var lifandi en samt dauð. Rifja upp göngulag Kínverjanna sem ég hafði séð í móðu þegar þeir stormuðu fram hjá mér, svo léttir á fæti, svo ákafir, fróðleiksþyrstir, það sást á því hvernig þeir fóru upp á tærnar við hvert skref. Eins og börn sem eru að fara í gönguferð með pabba og mömmu á sólríkum sumardegi, full tilhlökkunar, örugg og sæl, með gómsætt nesti í litlum bakpoka.
Þá man ég eftir hindinni sem ég hafði með mér upp í vetrarhúsið, þvílíkt og annað eins að lenda í slíkri aðstöðu, fólk á hennar aldri þarf líklega að fá morgunmat, ef ég man rétt. Svo ég vind mér fram úr, stirð.
Vetrarbirtan flæðir um húsið, ég fæ í augun þegar ég kem fram á ganginn, ég hef gleymt að draga gluggatjöldin fyrir í stofunni, hvað hef ég eiginlega verið að hugsa, hvað var ég að gera í gærkvöldi? Ég ýti varlega upp hurðinni að herbergi hindarinnar, þar er albjart inni, hún hefur ekki haft fyrir því að draga niður rúllutjöldin, hún getur greinilega sofið í birtu. Hefur rétt dregið gluggatjöldin fyrir til að koma í veg fyrir að einhver úti í myrkrinu geti horft á hana, er ekki alltaf einhver úti í myrkrinu?
Hindin liggur á hliðinni með annan fótinn ofan á sænginni, höfuðið teygt upp á við, munnurinn opinn líkt og hún sé stödd í spennandi draumaleikhúsi, má ekki missa af einu orði. Hörund hennar slétt, stinnt, roða bregður fyrir, ég veit að það ilmar, beygi mig niður, þefa af kálfanum, langar að strjúka hann, er komin með hönd mína að fæti hennar, en hætti við.
Mér verður litið á skrifborðið, þar er allt í einni bendu, blöð og efnisbútar, skæri, blýantar, tvinnakefli, hún hefur verið að föndra, það fer ekki á milli mála. Mitt í allri óreiðunni sé ég eitthvað sem líkist litlum brúðum. Ég tíni þær fram eina af annarri, held á hverri og einni, skoða, fæsta hafa hendur eða fætur eins og venjulegar brúður en allar eru þær með haus, og misstór augu. Eitthvað sem líkist vængjum er á sumum þeirra, á öðrum má greina stubba sem eiga sennilega að tákna lappir. Brúðurnar eru í regnbogans litum, vandlega saumaðar en ófullgerðar. Hindin hefur vakað yfir saumaskap um nóttina, hún hefur þá ekki sofið fremur en ég.

(s. 70-71)