Karlsen stýrimaður

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1962
Flokkur: 

Úr Karlsen stýrimaður:

 “Hver sagði þér það?” spurði hún lágt.
 Karlsen hugsaði sig um, en sá svo að bezt væri að segja henni sannleikann um, hvernig hann hefði komizt að leyndarmáli hennar.
 “Kerlingarbykkjan!” sagði Ásta æst. “Hún gat að minnsta kosti látið vera að ljúga, en hún þarf ekki að vera hrædd um, að ég komi aftur eða reyni að hafa samband við þau. Ég skal aldrei láta barnið mitt vita, hver er faðir þess. Ég hata þau öll og vil aldrei sjá neitt þeirra framar.”
 “Hata er nú heldur stórt orð,” sagði Karlsen sefandi. “En þér er illa við þau, og ekki lái ég þér það. Gleymdu þeim bara, láttu fortíðina eiga sig. Þú munt sjá að þetta er ekki svo voðalegt. Verra hefði verið, ef þú hefðir gifzt honum, og þau svo öll litið niður á þig. Og þó get ég ekki séð, hvaða ástæðu þau hefðu til þess.”
 Ásta þagði lengi.
 “Karlsen,” sagði hún loks. “Segðu mér nú eitthvað um þig, nú veiztu allt um mig, en ég ekkert um þig, nema hvað þú heitir.”
 Hann hló. “Ég nenni ekki að tala um sjálfan mig núna. Það er svo dauðleiðinlegt umræðuefni, en seinna máske. Nú þarft þú að fara að sofa, og ég verð að fara á vakt.”
 Hann fylgdi henni að klefa nr. 3. þar þakkaði hún honum fyrir skemmtunina í hálfum hljóðum, því ekki var að treysta því að sú gamla svæfi.
 Hurðin á klefanum opnaðist ofurhægt, og tvö forvitin augu horfðu á þau með samblandi af öfund og hneykslun.
 Karlsen sendi henni fingurkoss, þegar hann tók eftir henni, en sú gamla fussaði og skellti í lás. Þau litu brosandi hvort á annað.

(s. 36-37)