Kaldaljós

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987
Flokkur: 

Úr Kaldaljósi:

- Grímur minn, segir pabbi Tuma og barkakýlið hefur stöðvast, - það hefur orðið slys.
- Slys!
Meira getur hann ekki sagt. Tumi tekur um hönd hans. Ekkasog mömmunnar aukast.
- Snjóflóð.
Grímur stirðnar. Hvers vegna er orðunum beint til hans?
- Hvar? segir hann og rödd hans er hörð einsog klettur.
- Undir Tindi. Hann ruddi úr sér.
- Og?
Hjartsláttur hans heyrist.
- Við vitum ekkert enn þá, vinur.
- Og mamma! hvíslar hann.
Fleiri nöfn getur hann ekki nefnt.
- Við vitum ekki um neinn.
Hundurinn sleikir hönd Gríms ákaft. Hvað er þessi maður að segja við hann? Hvað er þessi hundur að sleikja hönd hans? Enginn skal sleikja hönd hans. Enginn. Hann ýtir hundinum frá sér. Sparkar í hann. Grímur Hermundsson sækir úlpuna sína. Hér hefur hann ekkert að gera. Ekkert. Hér hefur hann aldrei haft neitt að gera. Aldrei.
Og pabbi Tuma réttir honum reku. Hann langar að berja allt þetta fólk með rekunni. Mola það. Hvað er allt þetta fólk að stara á hann? Hann starir á móti. Augu hans brenna.
- Komum, segir pabbi Tuma.
Og þeir leggja af stað. Vaða snjóinn upp að hnjám.
Grímur Hermundsson er í úlpu og með reku í hendi á leið heim eftir þriggja vikna útilegu. Hann er útilegumaðurinn. En hann hefur gleymt þvottinum. Iss. Til fjandans með þvottinn. Til fjandans með það sem skiptir engu máli. Einn, tveir, þrír og rekan hans er broddstafur. En hvað er allt þetta fólk úr aðalbyggðinni og hundar þess að vilja? Fylgja honum? Já. Hann er riddari. Rekuriddari með fylgdarsveit. En hvað var pabbi Tuma að tala um flóð? Hvað var hann að tala um að Tindur hefði rutt úr sér? Tindur er verndari. Það er hann. Skrýtinn er pabbi Tuma.
Grímur sér ekkert flóð. Hvaða rugl var í manninum? Aumingja maðurinn. En Grímur er undarlegur í hausnum. Það snýst allt í hring. Allt í hring. Og nú herða mennirnir gönguna. Hraðar og hraðar ganga þeir. Hann heldur í við þá. Ef þetta er kapphlaup ætlar hann að verða fyrstur. Það er hann sem á heima hér en ekki þeir. En hann sér engin hús. Hvar eru húsin? Hvar er hans hús? Hvað eru þessir menn að gera? Þeir grafa ofan í snjóinn. Höggva og grafa. Höggva og höggva og grafa og grafa og það eru undarleg hljóð í kringum þá. Væluhljóð og brestir. Kannski í vindinum.

(s. 121-122)