Jólasögur úr samtímanum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Jólasögur úr samtímanum
hefur að geyma sex frásagnir af samksiptum Íslendinga og Jesúbarnsins. Þetta eru sannarlega óvenjulegar jólasögur, ritaðar af alkunnri gamansemi og list höfundarins.

Úr Jólasögum úr samtímanum:

Að svo mæltu reif hún upp bíldyrnar, þrátt fyrir veðurhaminn, og hvarf í iðuna. Maðurinn fór strax á eftir svo hún týndist ekki í kófið eða króknaði án þess að hann yrði að minnsta kosti vitni að því og gæti sagt frá málavöxtum í fjölmiðlunum, ef hann kæmist af fyrir sakir kraftaverks. Bæði voru kappklædd en það dugði lítið gegn ágangi bylsins, hann var svo niðdimmur og kaldur að þau töldu víst að þau myndu krókna innan skamms ef engin hjálp bærist. Konan leitaði þá heitar og ákafar í huganum að hjálpræði og bað guð, væri hann til, að senda sér Frelsarann, þótt hún hefði aldrei lesið um það að hann hefði látið sjá sig á íslenskum heiðarvegum í þunnu skikkjunni sinni, hvað þá í hríð um hávetur.

Nú er tækifærið komið fyrir son þinn að skoða landið, þótt það skarti ekki nema að vissu leyti sínum fegursta vetrarbúningi, leyfði hún sér að hnýta aftan í eina bænina en var annars ekki fyrir það gefin að tala við guð eins og upp úr ferðapésa.

En ákallið í auglýsingastíl var eins og við manninn mælt: fyrir framan þau sást dreifður bjarmi líkt og frá bílljósum sem reyndu að brjótast gegnum látlausa hríðina. Guð lætur ekki á sér standa, sagði konan glöð í bragði og fegin þessari bænheyrslu því hún hafði aldrei áður beðið hann um annað en góða heilsu eða smotterí sem engin leið er að vita hvort maður fær vegna bæna eða veitir sér sjálfur, því alltaf virðast vera til peningar fyrir ýmsu dóti. Innan skamms var bjarminn kominn fast að þeim, ljósin voru á stórum fjallajeppa sem virtist hafa verið að bíða eftir þeim í skafrenningnum við himinháa fönn.

Dyrnar opnuðust og þegar hjónin skreiddust inn við illan leik sáu þau að tvær verur sátu tígulegar í framsætunum og silfurtær ljómi stafaði frá þeim. Hvorug heilsaði á kristilegan hátt. En þegar glýjan var horfin úr augum hjónanna, eftir að hafa verið lengi að þramma úti í myrkrinu, sáu þau hvaða manneskjur þetta voru. Það leyndi sér ekki að þarna sat María mey með son sinn Jesú við stýrið, barnslega fullorðinn. Þau voru nauðalík líkneskjunum, sem höfðu verið hnoðuð úr snjó, nema þau voru að háma í sig sælgæti, og einnig á svipuðum aldri; þó virtist María mey vera öllu yngri en Jesú.

(s. 82-3)