Jakobsglíman: Uppvaxtarsaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1983

Úr Jakobsglímunni

Jakob minn, ég er hér til að veita þér hjálp og leiðsögn. Við getum gert það hér og nú. Við getum beðið saman og falið sál þína Frelsaranum. Viltu það? Viltu ganga honum á hönd hér á þessum helga stað og verða liðsmaður hans og lærisveinn?

Ég þagði drykklanga stund og var hugsi ánþess að hugsa neitt sérstakt, en kinkaði loks kolli þareð ég sá enga aðra færa leið útúr vandanum.

Friðrik kraup á kné fyrir framan mig og benti mér á að gera slíkt hið sama. Þvínæst spenntum við greipar, lutum höfði og létum aftur augun. Friðrik spurði lágróma hvort ég vildi ekki biðja, en ég bað hann að byrja.
 Góði Guð, sagði hann hátíðlega. Þakka þér fyrir þennan unga vin sem þú hefur leitt á rétta braut og vill nú veita náð þinni viðtöku. Þakka þér fyrir að orð þitt hefur þítt klakann í hjarta hans og opinberað honum hjálpræðisveginn. Vertu honum náðugur og veittu honum styrk til að ganga mjóa veginn sem liggur til eilífs lífs. Verndaðu hann gegn freistingum og gefðu honum djörfung til að bera þér vitni meðal félaga sinna og vinna þér nýja lærisveina. Blessaðu hann um tíma og eilífð. Þakka þér líka, góði Guð, að þú gast notað mig syndugan og óverðugan til að leiðbeina vini mínum og leiða hann í náðarfaðm þinn...

Meðan Friðrik var að flytja bænina var einsog mig sundlaði. Mér fannst jafnvægisskynið komast á riðl og átti hálfpartinn von á að steypast framyfir mig. Ég vissi sem var, að ætlast var til að ég flytti líka bæn - mína fyrstu bæn í heyranda hljóði - og vissi ekki mitt rjúkandi ráð, fann engin orð sem hæfðu stundinni og því sem var að gerast, því það var mér ekki nema að hálfu skiljanlegt sjálfum. Innvortis var ég klökkur og hryggðarfullur yfir vangetu minni til að rýmka hugsunarsviðið og inna af hendi það smávægi að flytja skapara mínum stutta bæn.

Friðrik sagði amen, þagnaði og beið. Þegar ég gerði mig ekki líklegan til að ljúka sundur munni, hvíslaði hann ofurlágt: Nú skalt þú líka biðja, Jakob minn.

Ég dró andann djúpt, saup hveljur og leitaði logandi ljósi í hugarfylgsnunum að einhverju sem hægt væri að segja kinnroðalaust á svo heilagri stund, en var rúinn allri hugsun. Kaldur sviti spratt fram á enni mér, tungan loddi við góminn og lófarnir urðu þvalir. Um síðir fékk ég stunið upp með miklum andþyngslum og dúndrandi hjartslætti: Góði Guð, miskunna þú mér. . . . Gerðu mig að lærisveini þínum . . . Amen.

Ég lauk upp augum og varð kafrjóður þegar Friðrik leit til mín með vingjarnlegu brosi. Hann rétti fram höndina og tók þéttingsfast í mína um leið og hann horfði djúpt í augu mér og sagði: Til hamingju, Jakob minn. Nú ertu kominn í hóp guðsbarna.

(s. 46-48)