Íslenzka teiknibókin í Árnasafni

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1954
Flokkur: 


Ásgerður Búadóttir gerir teikningar eftir myndum í Teiknibók.

Úr bókinni:

Áratugirnir eftir 1400 eru einn myrkasti kaflinn í sögu Íslands. Svartidauði herjaði landið ógnarlega og lamaði allt þrek. Heimildirnar um þennan tíma eru í molum, og hvða myndlistasöguna snertir, gisnar allt og rennur út í grátt. Þó eru til nokkrir hlutir, sem rísa eins og bjartir tindar úr sortanum, - og sá þeirra sem mest er verður, er Teiknibókin íslnzka í Árnasafni. Það eru myndir hennar, sem ég ætla að kynna með þessari bók, og því hefi ég brugðið upp nokkrum dráttum úr listsögu okkar á 13. og 14. öld, að mönnum mættu verða ljósari þeir meginþættir, sem að henni liggja.

[...]

Í teiknibókinni er saga sköpunarinnar sögð í sex litlum myndum, á tveim síðum. Þeir sem muna sín kristin fræði taka e.t.v. eftir því, að teiknarinn fylgir sköpunarsögunni ekki bókstaflega, heldur dregur hann verk tveggja daga saman í eitt, sköpun ljóss og myrkurs og sköpun festingar, en skiptir hinsvegar sköpun ferfættra dýra og mannsins í tvo reiti. Því fer fjarri að þetta sé nokkurt persónulegt túlkunarbragð hans, heldur er það orðin föst hefð á síðari hluta miðalda. Maðurinn er orðinn svo kotroskinn, að honum finnst hann yfir það hafinn að eiga samflot með ferfættum skepnum, jafnvel á þessum árdögum allra hluta, og nokkru síðar gengur hann feti framar og aðskilur sköpun karls og konu í tvær ólíkar myndir. Þótt smávægilegt sé, speglar það hina breyttu heimsmynd mannsins, - hann lítur æ meir á sig sjálfan sem þungamiðju veraldar.

(19 og 27)