Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1961
Flokkur: 


2. útg.: Mál og menning, Reykjavík, 1990. Önnur prentun 1991. Aukin og endurbætt.

Af bókarkápu:

Um aldir var Kaupmannahöfn höfuðborg Íslendinga. Þaðan var landinu stjórnað, þar stunduðu menn framhaldsnám eða afplánuðu tukthúsvist. Í þessari stórfróðlegu og skemmtilegu bók rekur Björn Th. Björnsson þróun borgarinnar, fjallar um sögufrægar byggingar og rifjar upp örlagasögur af Íslendingum sem þangað sigldu, bæði broslegar og átakanlegar. Hér koma Fjölnismenn við sögu, Jónshús, furðufuglinn Þorleifur Repp, Jóhann skáld Sigurjónsson, Árnasafn og íslenskir námsmenn á Gamlagarði, svo nokkuð sé nefnt.

Bókin kom fyrst út árið 1961 og hefur lengi verið ófáanleg, en nú hefur textinn verið aukinn og lagaður að breyttum aðstæðum. Einnig eru á þriðja hundrað nýjar ljósmyndir í bókinni og hverjum kafla fylgir götukort sem gerir bókina handhæga til að rata eftir um Íslendingaslóðir. Hinir vinsælu sjónvarpsþættir höfundar um Íslendinga í Kaupmannahöfn voru byggðir á nokkrum köflum úr bókinni.


Úr Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn:

Við skulum hugsa okkur að við göngum með Jóni Sigurðssyni neðan frá Tollbúð og leiðina heim til hans. Við gætum farið beina stefnu, upp í gegn um Nýbúðirnar, um gömlu húsaraðirnar sem Kristján IV lét uppphaflega byggja fyrir sjómenn sína með timburmennina á Hólminum. En leiðin er stutt, þótt við tökuum á okkur krókinn út að Austurporti og meðfram bæjarveggnum gamla. Á árum Jóns var Kaupmannahöfn enn virkisborg, samanþjöppuð innan hárra, gróinna veggja; á þeim voru aðeins þrjú hlið, að norðan, austan og vestan. Nöfnin haldast enn, en eru nú heiti á járnbrautarstöðvum. Á þeim tíma stóðu þó hvorki hermenn né fallbyssur uppi á görðunum; fólk gekk þar skemmtigöngur í góða veðrinu, dreymnir stúdentar, góðborgarar með staf og pípuhatt og maddömu sína undir arminn, en dátarnir með stúlkurnar sínar gengu mjóa trjástígina handan við; þeir hétu Lævirkjastígur, Vonarbraut, Ástargata. Á kóngsbænadagskvöld fóru allir sem vettlingi gátu valdið upp á garðana og gengu hálfhringinn, frá Vesturporti til Austurports eða öfugt, meðan allar kirkjuklukkur borgarinnar samglumdu.

Við göngum meðfram Austurvegg eða Östervoldgade, svo sem gatan heitir á dönsku. Húsin eru aðeins á vinstri hönd, bæjarveggurinn þétt við á hægri. Nokkrar bygginganna eru meðal hinna elztu í bænum, frá því fyrir brunann 1728. Í sumum glugunum eru rúðurnar grænleitar og þykkar eins og flöskubotnar, og húsin hafa missigið; þau hallast hvert að öðru, líkust drukknum sjómönnum í landgöngu. Vestur við Stokkhúsgötu, við Austurvegg númer 8, stendur hátt hús, þversneitt fyrirhornið og hvítkalkað; þar uppi á þriðju hæð er heimili Jóns. Neðan af götunni sér ekkert út eftir; bæjarveggurinn lokar fyrir nokkrum skrefum frá. En þegar upp er komið, upp í dagstofu Jóns og kontór, sér langt út yfir landið, akra og bóndabæi hér og þar; í fjarska rísa upp turnarnir á þorpskirkjunum.

(191-192)