Indjáninn

indíáninn
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Meðhöfundur bókarinnar er Hrefna Lind Heimisdóttir.

Um bókina

Indjáninn er saga um fjörmikinn strák, örverpi aldraðra foreldra. Drengurinn á við ýmis vandamál að stríða sem valda honum erfiðleikum í uppvextinum, svo sem ofvirkni, athyglisbrest, rautt hár og nærsýni. Hann er hugmyndaríkur og margvísleg uppátæki hans, sum stórhættuleg, vekja litla lukku hjá hinum fullorðnu.

Þetta er uppvaxtarsaga sem sveiflast á milli strákslegrar gleði og nístandi einmanaleika þess sem ekki er alltaf í takt við umhverfið, en jafnframt er hér brugðið upp mynd af samfélagi áttunda áratugarins frá sjónarhorni barnsins.

Höfundurinn kallar Indjánann skáldaða ævisögu og segir í eftirmála sínum: „Margir spyrja sig eflaust hvort þesssi bók sé ævisaga eða skáldsaga. Hún er bæði. Hún er ekki alveg sönn. Það er þó engin bein lygi í henni.“  

Úr bókinni

Tilkoma mín var algjört reiðarslag fyrir fjölskyldu mína. Mamma var 45 ára þegar hún eignaðist mig. Pabbi var fimmtugur.
   Þeim fannst þau allt of gömul til að eignast barn. Þetta þótti líka óvenjulegt á þeim tíma. Mamma skammaðist sín svolítið. Hún reyndi ekki að leyna þunguninni en hún flaggaði henni ekki heldur. Þetta var ekki planað. Ég var tilkominn út af hugsunarleysi í vorhreingerningum í maí.
   Áætlaður fæðingardagur var á nýársdag. Margir gerðu því skóna að ég yrði fyrsta barn ársins. Mamma þvertók fyrir það. Hún kærði sig ekki um neina óþarfa athygli.
   Læknarnir sögðu henni að vegna þess hve fullorðin hún væri, væri mjög líklegt að ég yrði þroskaheftur. Henni var ráðlagt að fara í legvatnsástungu til að athuga með litningagalla. Það er nokkuð áhættusöm aðgerð því hætta er á fósturmissi. Mamma kærði sig ekki um það. Hún treystir ekki læknum. Hún er líka vön að taka því sem að höndum ber án þess að kvarta eða fjargviðrast út af því. Hún hefur lært að vera æðrulaus. Hún tekur afleiðingum gjörða sinna. Hún þolir ekki óheiðarleika eða undanbrögð. Hún hefur lært að auðvelda og þægilega leiðin er sjaldnast rétta leiðin. Úr því að hún er orðin ólétt, ákveður hún að axla ábyrgðina á því og fæða barnið og að ala það upp, þroskaheft eða ekki.
   Fæðing mín er annað reiðarslag fyrir fjölskylduna. Að vísu er ég ekki þroskaheftur. Það er léttir. En eftir fæðinguna blasir önnur hryllileg staðreynd við: Ég er rauðhærður.

(s. 9-10)