Úr Í sumardölum:
Sumarást
Ég er vínið og þú ert hinn granni stafur,
ég er víntréð, unnusti minn.
Ég hef vafizt um arma þína og fætur,
fléttazt í sumar um líkama þinn.
Ég var ungt vín og súrt.
Nú er haust
og safi minn er sætur.
(s. 35)
Höllin
Kynlegt að búa í höll
af holdi og þjótandi blóði,
læstur innan við rimla
af rammgerum, sveigðum beinum,
sitja þar glaður að drykkju
með sólskin og ilmvind í bikar,
ævilangt einn að drykkju
með allt lífið í bikar.
Unz dag einn að drykkinn þver,
hinn dýra mjöð, og ég ber
að vörunum myrkrið mjúka.
Höllin tekur að hrynja
hljóðlaust og duftið að fjúka.
(s. 17)