Í skugga heimsins

Útgefandi: 
Staður: 
Seltjarnarnes
Ár: 
1999
Flokkur: 

Um bókina

Endurútgefin á rafbókarformi, 2017.

Úr Í skugga heimsins

Ég er dæmdur í 50 þúsund króna sekt eftir meiðyrðalöggjöfinni fyrir það sem ég sagði í kirkjunni og enn fremur í skilorðsbundið varðhald til þriggja mánaða fyrir helgispjöll.

Í dómnum stendur að ég hafi vegið að starfsheiðri séra Sigmars á einstaklega rætinn og ósmekklegan hátt þegar hann var að sinna skyldustörfum sínum sem opinber embættismaður. Myndi varðhald koma í stað sektarinnar ef hún yrði ekki greidd á tilsettum tíma. Ekkert var talið sannað um fyrsta fund minn með séra Sigmari enda engin vitni að honum. Ekki var heldur tekið tillit til kæru minnar á hendur lögreglunni um harðræði við handtöku að nauðsynjalausu enda benti hegðun mín í kirkjunni til þess að ég kynni að hafa farið fram með offorsi gegn prestinum, eins og segir í dómnum.

Ég áfrýja þegar í stað. Ég skal aldrei borga eyri af þessari sekt. Frekar mun ég sitja inni. Þessu er ekki lokið. Ég er harðákveðinn í að láta þetta samviskulausa illmenni með prestakragann ekki komast upp með framferði sitt. Hann skal komast að því að í þetta sinn hefur hann ekki valið sér rétt fórnarlamb til að níðast á. Og í hvert skipti sem ég hugleiði þetta finn ég fyrir köldum og einbeittum ásetningi mínum að úthugsa aðferð til þess að klekkja á honum.

Ég get þó ekki neitað því að mér fellur það miður þegar skrifstofustjórinn fer að spyrja mig um þetta einn morguninn. Dómurinn hafði nýlega verið birtur í Lögbirtingarblaðinu og einhver í leikhúsinu séð hann. Svo ég segi honum alla söguna í stuttu máli.

- Ja, það er margt skrítið í kýrhausnum, segir hann þegar ég hef lokið máli mínu. Svo lítur hann rannsakandi á mig. Þú ert þó ekki einn af þessum mannkynsfrelsurum?

- Nei, af hverju í ósköpunum heldurðu það? spyr ég.

- Nú, mér datt það bara svona í hug. Þeir lenda alltaf í einhverjum vandræðum. Trúðu mér, Páll minn. Mannkynið vill ekki láta frelsa sig, forðast það satt að segja eins og heitan eldinn. Nei, þú skalt bara lofa kúlunni að snúast eins og hún vill. Einbeittu þér heldur að einhverju öðru, fótbolta, langstökki, frímerkjasöfnun. Farðu að líta á kvenfólkið, maður. Það er nóg af því. Fáðu þér konu og svo sér hún um afganginn. Þá færðu nóg viðfangsefni það sem eftir er. Við tölum svo ekki meira um þetta.

Ég tek samt eftir því að hann horfir svolítið einkennilega á mig yfir gleraugun nokkrum sinnum þennan morgun. Kannski er það rétt sem hann segir. Kannski á ég að reyna að verða venjulegur maður, fá mér eitthvert áhugamál, fyrir utan bækurnar, kvænast, eignast börn. En við tilhugsunina verður mér strax ljóst að ég get ekki hlaupist burt frá sjálfum mér og þóst vera annar en ég er. Ég á ekki annarra kosta völ en að fylgja minni leiðarstjörnu.

Ég vil samt ekki missa vinnuna. Ég kann vel við starfið, fólkið og staðinn og auk þess er ekki hlaupið að því að fá fasta vinnu. En ég veit að yfirmaður minn hefur gefið mér viðvörun. Hann er tilbúinn að líta fram hjá þessu núna með því skilyrði að slíkt hendi ekki aftur. Það verður erfitt fyrir mig að ábyrgjast það eins og allt er í pottinn búið.

(s. 71-72)