Í landi karlmanna

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2007

In the Country of Men eftir Hisham Matar.

Af bókarkápu:

Suleiman er níu ára drengur sem býr í Trípólí undir ógnarstjórn Gaddafis einvalds í Líbýu á áttunda áratugnum. Einn daginn er nágranni fjölskyldunnar dreginn á brott af svartklæddum útsendurum Gaddafis og smám saman rennur upp fyrir Suleiman að þeir hafa líka illan bifur á föður hans.
Pískrið og óttinn magnast allt í kringum Suleiman og honum er ekki mikill stuðningur í móður sinni sem er ráðvillt, drykkfelld og bitur eftir að hafa verið gefin sér tvöfalt eldri manni, aðeins fjórtán ára gömul.
Hisham Matar skrifar þessa átakanlegu en um leið fallegu bók að nokkru eftir eigin reynslu, enda ólst hann upp í Trípólí á áttunda áratugnum og menn Gaddafis rændu föður hans sem ekkert hefur til spurst síðan.

Úr Í landi karmanna:

Tveimur dögum eftir ferðina til Leptis og viku áður en ég sá Baba ganga yfir Píslarvottartorg var Ustath Rashid tekinn.
Ég hafði áður sé menn yfirheyrða í sjónvarpinu. Ég mundi eftir manni sem hafði átt fataverksmiðju í Trípólí. Hann var sakaður um borgaralegan hugsunarhátt og svik við byltinguna. Hann var klæddur ljósgráum ítölskum jakkafötum sem glönsuðu dálítið í skini ljóskastaranna. Hann sat stífur í stólnum eins og hann fyndi til. Ég stóð rétt utan við herbergisdyrnar þar sem sást ekki til mín. Baba og Músa sátu í sófanum en Mamma við hlið þeirra í hægindastólnum. Músa sagði hljóðlega við Baba: Þeir hlífa andlitinu viljandi. Ég skal veðja að líkami hans er morandi í sárum. Þá fór dökkur blettur að myndast í klofinu á manninum og stækkaði sífellt. Ég kom fyrstur auga á hann, hljóp að sjónvarpsskjánum og lamdi með puttanum á hann. Farðu, hrópaði Baba. Ég hljóp til Mömmu og stóð þar kyrr. Farðu inn í herbergið þitt, sagði hann. Þetta er allt í lagi, svaraði Mamma honum og hann æpti: Hann ætti ekki að sjá þetta. Þetta er hans land líka, sagði hún stillilega og horfði á skjáinn. Hann stormaði út úr herberginu. Við fylgdumst með manninum reyna að fela blautan blettinn með höndum sínum og engjast í stólnum.
En að sjá Ustath Rashid tekinn var ekki eins. Ég hafði svo oft heyrt sagt að enginn væri nokkurn tíma óhultur fyrir þeim, en að sjá með eigin augum, að sjá hvernig það gerist, á einu augabragði, án minnsta svigrúms til að mótmæla, til að neita, sneri öllu á hvolf inni í mér. Þegar Mamma sá mig rétt á eftir sagði hún: Það er eins og þú hafir séð draug. Þegar ég sagði henni hvað ég hefði séð greip hún annarri hendinni um ennið á sér og hvíslaði: Aumingja Salma. Hún fór með mig inn á bað og þvoði mér í framan. Þú hefðir ekki átt að horfa á þetta. Í næsta skipti hleypurðu beina leið heim. Svo lagaði hún handa mér súpu og te eins og ég væri með flensu.

Einhver, svikari, prentaði pappírssnepla með gagnrýni á Verndarann og Byltingarnefndir hans. Þeir komu um miðjar nætur og lögðu þá á útitröppurnar okkar eins og dagblöð. Ég segi einhver, en það hljóta að hafa verið hundruð, kannski jafnvel þúsundir, manna. Við strákarnir skiptumst á um að vaka eftir þeim og vonuðumst til að sjá einhverjum þeirra bregða fyrir. Við ímynduðum okkur að þeir væru í svörtum fötum, grímuklæddir og snöggir í snúningum. Ali kvaðst hafa séð einn. Masúd sló hann í hausinn og sagði: Ef þú heldur áfram að ljúga um þetta, þá segi ég Baba frá því.
Allir óttuðust áróðurssneplana og lögðu áherslu á að rífa þá í augsýn nágrannanna.

(bls. 31-32)