Í Dyflinni

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982

James Joyce: Dubliners.

Úr Í Dyflinni:

Framliðnir

Lily dóttir umsjónarmannsins fékk bókstaflega ekki stundlegan frið. Hún hafði varla lokið við að vísa einum gesti inní litla herbergið bakvið skrifstofuna á neðri hæðinni og hjálpað honum úr yfirhöfninni, þegar snörlandi dyrabjallan hringdi á ný og hún varð að hlaupa eftir auðum ganginum til að hleypa inn nýjum gesti. Það kom sér vel fyrir hana að hún þurfti ekki líka að hugsa um kvenþjóðina. Ungfrú Kate og ungfrú Júlía höfðu hugsað fyrir því og breytt baðherberginu uppá lofti í fataherbergi fyrir kvenfólkið. Ungfrú Kate og ungfrú Júlía voru þar uppi, mösuðu og flissuðu og voru með hamagang, komu við og við framað stiganum, gægðust yfir handriðið og hrópuðu niður til Lily til að fá að vita hver hefði verið að koma. Árlegur dansleikur Morkan-systranna var ævinlega mikill viðburður. Allir sem þekktu þær komu til hans, ættingjar, gamlir fjölskylduvinir, meðlimir úr kórnum hennar Júlíu, allir nemendur Kate sem voru orðnir nógu stórir og jafnvel nokkrir af nemendunum sem Mary Jane kenndi. Það var dansleikur sem aldrei nokkurntíma hafði mistekist. Ár eftir ár hafði hann verið haldinn með mikilli viðhöfn, eins lengi og elstu menn mundu; alla tíð síðan Kate og Júlía höfðu flutt frá húsinu í Stoney Batter, eftir að Pat bróðir þeirra féll frá, og tekið Mary Jane, einustu bróðurdóttur sína, með sér til að búa í þungbúna, kuldalega húsinu á Usher's Island, þarsem þær höfðu tekið á leigu efri hæðina af Fulham kornkaupmanni á neðri hæðinni. Það var fyrir röskum þrjátíu árum og ekki degi skemur. Mary Jane, sem þá var lítil stúlka í stuttum kjólum, var nú stoð og stytta heimilisins, því hún var organleikari í kirkjunni við Haddinton Road. Hún hafði lokið námi í Tónlistarskólanum og hélt árlega nemendatónleika í litla salnum í Gamla hljómleikahúsinu. Margir af nemendum hennar komu frá efnaheimilum í Kingston og Dalkey. Frænkur hennar voru komnar til ára sinna en lögðu samt sitt af mörkum. Þó Júlía væri orðin grá fyrir hærum var hún enn helsti sópraninn í kirkjukórnum í helgidómi Adams og Evu, og Kate, sem var orðin of veikburða til að vera á faraldsfæti, kenndi byrjendum hljóðfæraleik á gamla píanóið í bakherberginu. Lily dóttir umsjónarmannsins annaðist húsverkin fyrir þær. Þó þær lifðu fábrotnu lífi þótti þeim gott að borða vel; það besta sem var á boðstólum: hryggjarstykkið úr nautasteikinni, þriggja shillinga te og besta fáanlegt flöskuöl. En Lily urðu sjaldan á mistök í innkaupum, þannig að henni samdi vel við þrjár matmæður sínar. Vissulega voru þær óþarflega smámunasamar. En það eina sem þær þoldu ekki var framhleypni og hortugheit. Auðvitað höfðu þær fulla ástæðu til að vera smámunasamar á kvöldi sem þessu. Klukkan var löngu farin að ganga ellefu og enn hafði ekkert sést eða heyrst til Gabríels og konu hans. Auk þess voru þær á pikkandi nálum um að Freddy Malins birtist ölvaður. Þær vildu ekki fyrir nokkurn mun að neinn af nemendum Mary Jane sæi hann undir áhrifum; og þegar hann var í því ástandi var stundum ákaflega erfitt að tjónka við hann. Freddy Malins kom alltaf seint, en þær skildu ekki hvað hefði getað tafið Gabríel: og það var þessvegna sem þær komu að handriðinu aðrahverja minútu til að spyrja Lily hvort Gabríel eða Freddy væri komin.

(s. 181-182)