Í álögum

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1968
Flokkur: 

Úr Í álögum:

 Málfríður öskraði að bróður sínum:
 “Þú þinn bölvaður grautarhaus, nú er stelpan sloppin, svo að segja við nefið á þér, og þú nærð aldrei til hennar meir, og fyrir hve vitlaus þú ert skaltu aldrei fá eyri af því sem við skuldum þér. Snáfaðu nú heim eins og hundur með lafandi skott og láttu engan sjá þig. Þú verður dreginn sundur og saman af háði hér í sveitinni og sýslunni og út um allt landið!”
 Ofsinn í Málfríði var svo mikill, að Jónatan kom ekki orði að, hann opnaði munninn aftur og aftur til að segja eitthvað, en Málfríður lét hann ekki komast að.
 Það var heppni fyrir Svein, að hún var búin að útausa sér yfir Jónatan; þegar að því kom að tala yfir hausamótum bónda síns, var hún eins og belgur sem allt loft er lekið úr.
 Sveinn þagði, hann vissi að það var lang affarasælast, meðan hryðjan gekk yfir.
 Jónatan rölti heim með hendur á baki. Nú yrði hann bitbein nágrannanna, eins og Málfríður hefði sagt. Hann leit inn í hesthúskofann á leiðinni, fann sér reiptagl og horfði upp í rjáfrið eftir hentugum bita. Það væri bezt að hengja sig strax. Hann brá taglinu um háls sér. Það var fléttað úr hrosshári og svo snarpt viðkomu að Jónatan hryllti við, hann yrði að fá sér mýkri spotta! Enda gat þetta reipi verið orðið fúið og slitnað, svo hann dytti niður og handleggs- eða fótbryti sig. Það væri því bezt að slá þessu á frest og fá sér nógu góðan spotta!

(s. 167-168)