Hyldýpi

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 
Af bókarkápu:

Fjórir ungir drengir róa í leyfisleysi út á stórt stöðuvatn. Einn þeirra fellur útbyrðis og er nærri því drukknaður. Ofan í vatninu birtist nakin stelpa, bjarthærð og grönn, og réttir honum svartan hlut. Sjálfur er drengurinn með myrkur í maganum, myrkur sem þrífst á þögn og ótta og mun einn daginn toga hann aftur til sín.

Tíu árum síðar gerast dularfullir atburðir: Tvö ungmenni hverfa sama dag, piltur og stúlka. Pilturinn finnst nærri dauða en lífi en ekkert spyrst til stúlkunnar. Hann ákveður að leita hennar en hversdagsleikinn breytist í botnlaust hyldýpi og leitin verður fljótt að martröð sem engan enda ætlar að taka …

Úr Hyldýpi:

Hún tekur fram spiladós og setur hana á borðið fyrir framan Sölva. Dósin er úr dökkum viði, sporöskjulöguð með kúptu loki og stendur á flúruðum fótum. Framan á lokinu er silfurskjöldur. Í hann er grafið með skrautletri:
The Twilight Garden.
„Ég held að hann hafi keypt hana af því að honum fannst hún svo flott en mér þykir samt vænt um hana.” Hún hallar sér nær Sölva og hvíslar í eyra hans. „Opnaðu hana.”
Hann lyftir lokinu og þá heyrist daufur smellur og lágvært urg í tannhjólum sem ekki ná að vinna saman. Inni í dósinni er eftirlíking af litlum garði. Aftast í garðinum, þar sem lokið hvílir á hjörunum, eru fáein tré en fyrir framan þau er hálfmánalagaður bekkur. Á honum miðjum situr ungur maður í jakkafötum. Hann er beinn í baki og hvílir framhandleggina á lærunum og lófana á hnjánum. Fyrir framan unga manninn er bogadregin tjörn og á tjörninni syndir álft með höfuðið í mjúkum boga. Í loki dósarinnar er svo málaður kvöldhiminn, að mestu dimmblár en ljósari í miðið.
Sá sem smíðaði þennan litla örheim hefur vandað til verka. Hvert smáatriði er úthugsað og efnis- og litaval er óaðfinnanlegt.
„Þetta er afar sérstök spiladós. Hvað ætli hann sé að hugsa, þessi þarna á bekknum?” tautar Sölvi með sjálfum sér. „Maðurinn í Rökkurgarðinum. Ætli hann sé þjakaður af áhyggjum og kvíða? Ráðvilltur og einmana?”
„Hm.” Hanna veltir spurningunni fyrir sér.
„Ég held ekki,” segir Sölvi lágum rómi. „Mér sýnist hann vera í fullkomnu jafnvægi. Algerlega sáttur við eigið hlutskipti. Guð og menn. Búinn að finna frið í sálinni.”

(s. 88-89)