Hvítfeld – fjölskyldusaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 

Um Hvítfeld – fjölskyldusögu:

Fyrrverandi fimleikastjarnan Jenna Hvítfeld hefur allt: útlitið, kynþokkann, greindina og framann. Undanfarin ár hefur hún búið í Texas, vakið athygli fyrir uppgötvanir á sviði eðlisfræði, skrifað greinar í virt vísindarit, stundað fyrirsætustörf, verið bendluð við ýmsar bandarískar stórstjörnur og sinnt móðurhlutverkinu af alúð.

 

Þegar systir hennar deyr fer hún til Íslands ásamt Jackie dóttur sinni. Þar hittir hún fjölskyldu sína eftir langa fjarveru og smám saman rennur upp fyrir henni að ekkert er eins og hún hélt. Gegnum ættarsögu hennar kvíslast lygin líkt og eitur og að lokum neyðist Jenna til þess að horfast í augu við fortíðina og sjálfa sig.

 

Úr Hvítfeld – fjölskyldusögu:

 

Jackie vill fá að vita hvað hrunið þýðir. Við erum nýkomnar í loftið, erum á heimleið, og hún er strax orðin eirðarlaus.

 

Af hverju viltu vita það? spyr ég og Jackie segir að Íslendingar hafi notað þetta orð svo mikið.

 

Þeir eiga við þegar efnahagskerfið hrundi, útskýri ég. Fyrir fjórum árum héldu allir að þeir væru ofboðslega ríkir en síðan komust þeir að því að svo var ekki. Bankarnir og fullt af fyrirtækjum fóru á hausinn, fólk missti vinnuna og ævisparnaðinn og margir neyddust til að lýsa sig gjaldþrota.

 

Eru amma þín og afi þá fátæk? spyr Jackie áhyggjufull.

 

Amma þín átti ekkert þannig að hún tapaði heldur engu. Svo er hún ríkisstarfsmaður þannig að hún hélt vinnunni. Afi þinn og Petra töpuðu engu vegna þess að langafi þinn varaði þau við svo að þau komu eignum sínum og sparnaði undan í tæka tíð.

 

Jackie er hætt að hlusta. En af hverju, spyr hún, af hverju héldu allir að þeir væru ríkir þegar þeir voru það ekki?

 

Vegna þess – myndast ég við að útskýra – að því var logið að þeim.

 

En það er andstyggilegt, segir Jackie og horfir á mig full ásökunar.

 

Þau vildu samt trúa því, reyni ég að verjast og Jackie þagnar, hugurinn er á fullu og ég óttast að hún sé að kokka uppreisn gegn mér, gegn upplogna heiminum okkar. Hún setur á sig heyrnartólin og minnir mig á fullorðna manneskju í því hvernig hún skilur mig eftir hangandi í þögn. Samt næ ég fljótlega að sofna og vakna ekki fyrr en við skellinn þegar flugvélardekkin strjúka Kennedy-flugvöllinn. Í New York er enn þá morgunn. Flugvélin okkar fer ekki til Texas fyrr en um kvöldið svo að við setjum farangurinn okkar í geymslu áður en við tökum lestina niður á Manhattan.

 

Það er ekki fyrr en ég spyr Jackie hvað han langi að gera í New York sem það lifnar aðeins yfir henni. Þegar ég segi henni að hún megi ráða er líkt og hún gleymi öllum leiðindum. Ein af vinkonum hennar í Live Oak er frá New York og Jackie hefur hugmyndir sínar um borgina frá þessari níu ára gömlu stelpu sem er illa haldin af heimþrá.

 

Ég geri mér grein fyrir að dóttir mín heldur að New York sé eins og barnaafmæli hjá milljónamæringi en hef samt engar áhyggjur vegna þess hve afskaplega erfitt er að valda henni vonbrigðum. Ímyndunarafl hennar gerir úr ómerkilegustu atvikum stórviðburði, og þess vegna er Jackie í raun sérlega nægjusöm. Eftir smágúgl á símanum finn ég leiðbeiningar um hvernig við komumst á Náttúruminjasafnið. Svo minni ég Jackie á Night at the Museum með Ben Stiller og ég segi henni að við séum að fara þangað. Jackie spennist öll upp af tilhlökkun og það sem eftir er ferðarinnar, gegnum grámyglulegt rigningarveður í úthverfum í New York, lýsir hún fjálglega kvikmyndinni, senu fyrir senu.

 

***

 

Við trítlum milli sýningarsalanna og þegar við komum að risaeðlunum er Jackie óðamála af æsingi og hleypur um salinn. Ég lofa henni að sauma grameðlubúning fyrir næstu hrekkjavöku, taka Jurassic Park-helgi bráðlega og að hafa afmæliskökuna hennar í laginu eins og risaeðlubein.

 

Við höfum hana risastóra, segir hún, úr púðursykursmarens og svo getum við sett miða á hana þar sem stendur hvað beinið er gamalt og hvar það fannst, segir hún spennt.

 

Frábær hugmynd, segi ég og vnoa að höfuðið á dóttur minni fyllist af draumum um forsögulegar eðlur í stað frumspekilegra vangaveltna um sannleikann og lygina. Að lokum förum við í stjörnuverið, stöndum í miðri þvögu af grunnskólakrökkum, leiðumst til að týna ekki hvor annarri og gónum upp í þrívíðan geiminn.

 

Eftir að hafa fengið okkur bita göngum við um Central Park. Það hefur stytt upp en jörðin er blaut og vatn drýpur af laufblöðunum.

 

Af hverju kom amma ekki heim í gærkvöldi? spyr Jackie allt í einu og ég segist ekki vita það almennilega, hún hafi orðið veik og þurft að fara á spítala. Jackie þegir og horfir á mig döprum augum.

 

Ég myndi aldrei fara frá þér ef þú værir veik, segir hún og herpir saman varirnar af vandlætingu. Við þessu hef ég ekkert að segja. Síðan Bergsveinn sagði mér að mamma hefði veikst hef ég ekki leitt hugann að líðan hennar í eitt einasta skipti. Ég vil alls ekki hugsa meira umþ að en þörf krefur.

 

Laufin á trjánum eru orðin rauð og gul en hanga enn á sínum stað. Bráðum feykjast þau á jörðina og breytast í mold. Trén standa þá eftir, kræklótt og berskjölduð þangað til snjórinn þekur þau. Kaldur gustur næðir allt í einu um mig og ég lít í klukkuna.

 

Það væri best að við tækjum lestina út á flugvöll fljótlega, segi ég en Jackie hefur ekki einu sinni fyrir því að svara. Hún er föst í hugsunum sem ég bægi frá mér.

 

(49-51)