Hvíta kanínan

Hvíta kanínan
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

um bókina

Þegar Einar blaðamaður er rekinn nauðugur í frí eygir hann tækifæri til að afla svara við spurningum sem legið hafa þungt á honum. Hann hyggst leita upp dularfullan lögfræðing, Alfreð G. Hauksson, sem heldur sig í felum á Spáni. Þangað heldur Einar í sólarferð með Gunnsu dóttur sinni, en er rétt sestur í makindum með Jim Beam í kóki þegar válegir atburðir gerast í íslenska hópnum. Það er upphafið að martraðarkenndri atburðarás þar sem enginn og er eins og sýnist.
   Hvíta kanínan er önnur bókin um Einar blaðamann.

úr bókinni

Hugmyndin um abstraktmálverk hlýtur að hafa orðið til í flugvél. Eða í smásjá. Ofan frá og úr mikilli hæð er landslag andstæða þess sem það er á jörðu niðri; það er abstraktmálverk og um það hríslast fjölskrúðugir en listilega valdir litaflekkir og fagurlega hannaðir reitir. Guð hefur verið í stuði þegar hann málaði jörðina, trúlega undir helvíti sterkum áhrifum frá ... ja, ég veit ekki hverjum.
   Þegar vélin lækkar flugið er ég aftur sestur á rangan sjónarhól og farinn að rugla einhverja gluggasætisheimspeki við sjálfan mig, enda undir nokkuð sterkum áhrifum frá Jack Daniels í forföllum Jims Beam.
   Gunnsa situr við gluggann og horfir á borgina spretta upp á móti okkur.
   „Ógeðslega er hún falleg," segir hún.
   Ég halla mér að henni og gægist út. „Heldurðu að ég sé að bjóða þér upp á slor?"
   „Þarna er nú örugglega dálítið af slori," segir hún og bendir á ströndina og hafið sem breiðir úr sér þar sem borgin endar.
   Hún þegir um stund en segir svo: „Af hverju valdirðu þennan stað?"
   Nú verð ég að vanda mig, hugsa ég niðurlútur.
   „Heill ævintýraheimur út af fyrir sig, skilst mér," umla ég eins og beint upp úr auglýsingapésa. „Hér er örugglega margt að sjá og heyra." Svo bæti ég við eins blátt áfram og mér er unnt: „Til dæmis gæti verið hérna maður sem mér þætti fróðlegt að hitta í sambandi við gamalt fréttamál."
   Gunnsa horfir á mig spyrjandi. Ég læt þess ógetið að í farteskinu hafi ég dagbókarfærslur Abels heitins Goodman; þær eru eins og vopn sem ég kann ekki að nota en gefur mér aukið vægi.
   „En það er algjört aukaatriði," flýti ég mér að bæta við. „Aðalatriðið er að við tvö getum haft það skemmtilegt saman. Þér leist nú strax vel á staðinn þegar ég nefndi hann."
   Nú er komið að henni að verða niðurlút. „Viltu lofa að verða ekki vondur, pabbi?"
   Ég horfi undrandi á hana. „Hvaðahvaða Gunnsa mín," segi ég og tek utan um axlir hennar. „Af hverju ætti ég að verða vondur? Ekkert er fjær mér en að verða vondur núna."
   Þá glaðnar yfir henni. „Æ hvað ég er fegin. Ég ætlaði varla að þora að segja þér frá þessu."
   „Frá hverju?" spyr ég hlessa.
   „Nei, Raggi og mamma hans voru nefnilega búin að panta ferð hingað. Þau koma eftir viku."
   Eitt andartak stífna ég upp þar sem ég held enn utan um axlir dóttur minnar. Þessarar saklausu stúlku. Sem er svo algjörlega laus við undirferli og annarlegar ástæður föður síns. Að ég hélt.
   „Fjúh," andvarpar Gunnsa og lítur glaðlega á mig. „Þakka þér fyrir að taka þessu svona vel."
   Ekkert að þakka, hugsa ég og bít á jaxlinn.
   „Við eigum áreiðanlega eftir að geta haft það skemmtilegt öll fjögur," segir hún og fer aftur að horfa út um gluggann þar sem grá flugbrautin rís upp að vélinni.
   Ég er of sár til að segja nokkuð.
Þegar jörðin hlunkast upp að lendingarhjólunum og flugstjórinn stígur á hemlana heyri ég Bjössa segja skærri röddu í sætinu fyrir framan mig. „Þetta er allt í lagi, Bjössi bangsi. Ekki vera hræddur. Ég skal passa þig."

(s. 21-23)