Hvarfbaugar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

Úrval ljóða Sigurðar frá árunum 1952-82.

Úr formála höfundar:

Umdeilanlegt er hvernig heppilegast sé að haga útgáfu safnrita þarsem saman kemur efni úr fleiri en einni bók. Ein aðferð og sennilega sú algengasta er að láta bækurnar - eða úrvöl úr þeim - halda sér innan ramma safnritsins einsog frá þeim var gengið í öndverðu; önnur að stokka bækurnar upp og velja í samstæða kafla þau ljóð sem skyldust eru að efni og anda; þriðja að yrkja bækurnar upp og búa til úr þeim verk sem að meira eða minna leyti er frábrugðið frumsmíðunum.

Einsog athugull lesandi mun sjá, hef ég í þessari bók einkum haldið mig við aðra aðferðina, en gripið til þeirrar þriðju í viðlögum. Þó er ein undantekning frá þeirri reglu. Inngangskaflinn hefur að geyma helming frumortra ljóða úr fyrstu bókinni, Krotað í sand (1958). Um þá bók er reyndar það að segja, að ég var mjög vokins um erindi hennar í safnið, en endanlegri ákvörðun réð einkum tvennt: í henni eru nokkur ljóð sem ég er sáttur við, og í annan stað er hún til vitnis um það skeið í ritferlinum þegar ég var að þreifa fyrir mér og leita að eigin raddblæ eða tóntegund. Hitti kynni einnig að þykja nýsilegt, að ljóðin í inngangskaflanum birta upptök ýmissa meginstefja sem ganga einsog rauðir þræðir í gegnum seinni bækurnar.

Þarflaust mun að taka fram, að allmörg ljóð í inngangskaflanum og sömuleiðis í seinni köflum hafa verið lagfærð fyrir þessa útgáfu, og liggja til þess augljósar ástæður. Ljóð eru sjaldan eða aldrei fullort. Þessvegna hlýtur höfundi að vera í sjálfsvald sett hversu lengi hann heldur áfram að vinna með þau, að því tilskildu að hann breyti þeim ekki í eðli sínu eða geri úr þeim eitthvað annað en til var stofnað við fyrstu smíð. Ég hef með öðrum orðum leitast við að lagfæra ytri búning ljóða sem ég var ekki fyllilega sáttur við, en hvergi haggað inntaki þeirra eða upphaflegum hugmyndum. Vitanlega er það gert í því augnamiði að ljá bókinni heillegri svip og gera hana læsilegri. Hafi menn hinsvegar hug á að kynna sér missmíðin sem ég sá á umræddum ljóðum, þá er hægurinn hjá að leita þau uppi í fyrri bókum.

Þess eru ófá dæmi að ljóðasmiðir hafi varið ævinni til að setja saman eina og sömu bók, grisja hana og auka að umfangi, breyta og betrumbæta eftir því sem árin færðust yfir þá. Kunnasta dæmið er sennilega Leaves of Grass eftir Walt Whitman. Líta má á þessa bók sem litla grein á þeim meiði. Hún er heildarsafn þess sem ég tel mig kinroðalaust geta kannast við í þessari tilteknu bókmenntagrein.