Hvað er eldi guðs?

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1970
Flokkur: 

Úr Hvað er eldi guðs?:

Fílefldir menn taka hana víst án átaka, sagði maðurinn. 
Látið mig heldur lunka hana í föt, bað konan. 
Alveg vandræði ef svonalagað kemur fyrir, sagði maðurinn. 
O, sagði annar lögregluþjónninn. Maður sér sitt af hverju.
Hinn leit á hann ásökunaraugum, eins og lögreglueiðurinn hefði verið brotinn.
Farðu í, sagði konan. Nú færðu ferð í Keflavík. Slys henti bróður hans.
Mér líður notalega hérna, svaraði ókunnuga konan. Ég er náttblind.
Náttblind í upphituðum bíl, spurði konan. Hertu þig. Hann bíður.
Ókunnuga konan vafði sænginni um sig og sneri sér til veggjar.
Jæja, sagði konan örlítið skipandi.
Ég verð eftir, sagði ókunnuga konan. Þú leyfðir mér að liggja.
Rauðir flekkir færðust í andlit konunnar. Hún tyllti sér varlega á dívanbrúnina og strauk handlegg ókunnugu konunnar.
Var ekki meiningin að fara í Keflavík, spurði hún. Þú átt skyldmenni þar.
Ætli skyldmennin kannist fremur við mig þar en þú hér, svaraði ókunnuga konan. Komdu, sagði konan blíðlega og dró ókunnugu konuna að sér.
Þá svona, hvíslaði hún að henni.
Meðan hún vafði ókunnugu konuna að sér leituðu fingur hennar í hársverðinum unz þeir námu staðar við æxli. Hún strauk ókunnugu konunni um höfuðið.
Líki þér ekki, sagði hún, þá snýrðu aftur með bílnum.
Ég hugsaði mér að hringja á morgun, sagði ókunnuga konan veikróma. Séu þeir ekki þar. Og grennslast fyrir. Og fara annars aftur á minn stað.
Nú eru þeir komnir, sagði konan.
Nei, umlaði ókunnuga konan í sængina.
Konan hallaði höfði hennar á koddann. Hún sótti drenginn og kom og bar hann í fanginu. Hún settist með hann á dívaninn. Ókunnuga konan greip klaufskum höndum um fætur drengsins.
Jæja, sagði konan og reis á fætur með drenginn í fanginu.
Ég á í pilsvasanum, sagði ókunnuga konan.
Gefðu honum pokann sjálf, sagði konan blíðlega. Komdu. Fötin eru í böggli og pakkinn er frá þeim.

(s. 40-42)