Hvað er á bak við fjöllin?: Tryggvi Ólafsson listmálari segir frá

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004

Úr Hvað er á bak við fjöllin?:

Kjarval var eini maðurinn sem ég hafði hitt og gerði ekkert annað en að vinna við sína list, en Sveinn á Dalatanga málaði í frístundum. Kjarval var málari að atvinnu, rétt eins og Sveinn var vélstjóri, Gunnlaugur á Tjarnarlandi bóndi og faðir minn bókari. Ég hef verið spurður að því hvort ég, tíu ára guttinn, hafi fengið köllun til að mála við það að fylgjast með Kjarval. Köllun fékk ég ekki, en hann féll að þeirri mynd sem ég fékk úr bókum föður míns - að til væri fólk, líka á Íslandi, sem fengist við það eitt að búa til eitthvað fallegt þó það gæti verið furðulegt og algerlega gagnslaust í augum annarra. Ég sá þarna svart á hvítu að fullfrískur maður gerði ekkert annað en að mála myndir og það hafði sín áhrif. Má ekki líta á lífið eins og vörðu sem hlaðin er hægt og sígandi, stein fyrir stein? Neðst er bernskan, undirstaðan. Dvölin á Tjarnarlandi og að hitta Kjarval er þá steinn í vörðuna og gegnir sínu hlutverki, eins og allir hinir steinarnir sem bætast við eftir því sem varðan hækkar. Hann kom aldrei að Tjarnarlandi, svo ég muni, en við sáum til hans fara heim að Ketilstöðum að sækja póstinn og steinolíu á eldavélina og lampann. Hann var afskaplega elskulegur og skemmtilegur við krakka en það fór ekki á milli mála að hann hagaði sér allt öðruvísi en allt venjulegt fólk. Seinna heyrði ég að ýmsir hefðu reynt að gefa honum ráð um alla mögulega praktíska hluti. Hann á að hafa svarað:
    „Já, ég þigg gjarnan góð ráð,“ en bætt svo við: „Ég gef þau strax næsta manni.“

(s. 53)