Hundshjarta

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992

Um þýðinguna

Sobatsje sjerdtse eftir Míkhaíl Búlgakov í þýðingu Ingibjargar.

Úr Hundshjarta

 23. desember. Kl. 20:30 framkvæmdi Preobrazhenskí prófessor skurðaðgerð sem var sú fyrsta sinnar tegundar í Evrópu. Hundurinn var svæfður og úr honum tekin eistun en í stað þeirra sett í hann karlmannseistu með sáðrásum og öllu tilheyrandi, og höfðu þau verið tekin úr 28 ára karlmanni sem lést 4 klukkustundum og fjórum mínútum fyrir upphaf aðgerðarinnar og geymd í sótthreinsuðum, lífeðlislegum vökva samkvæmt fyrirmælum Preobrazhenskís prófessors.

(s. 66-67)

 2. janúar. Ljósmyndaður brosandi með magnesíumleiftri. Fór fram úr rúminu og stóð á afturlöppunum í hálftíma án þess að skjögra. Næstum jafnhár og ég.
 (Hér hefur laust blað verið lagt inn í stílabókina):
 Minnstu munaði að rússnesk vísindi yrðu fyrir þungu áfalli.
 Sjúkrasaga F.F. Preobrazhenskís prófessors.
 Kl. 13.13 steinleið yfir prófessorinn. Í fallinu rak hann höfuðið í stólfót. Honum voru gefnir nokkrir dropar af valeríana.
 Hundurinn (ef á annað borð er hægt að kalla hann hund) bölvaði prófessornum í viðurvist okkar Zínu.

____________________

(Ekkert skráð í nokkra daga.)

____________________

6. janúar. (Ýmist með blýanti eða fjólubláu bleki): Í dag, eftir að hafa misst skottið, bar hann skýrt og greinilega fram orðið “Bjórkrá”. Hljóðupptökutækið er í gangi. Fjandinn má vita hvað er að gerast.

____________________

Ég er alveg ringlaður.

____________________

Prófessorinn er hættur að taka á móti sjúklingum. Frá klukkan fimm síðdegis hafa borist úr biðstofunni, þar sem kvikindið gengur um gólf, ruddalegar formælingar auk orðanna: “Einn tvöfaldan enn”. 7. janúar. Hann er farinn að nota heilmörg orð: “leigubíll”, “allt fullt”, “kvöldblaðið”, “það besta fyrir börnin” og öll blótsyrði sem upp hafa verið fundin á rússnesku.

(s. 68-69)