Hugsjónadruslan

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Úr Hugsjónadruslunni:

Hann sendi hommann á brott. Og ég hætti að tala um Maggie, og hætti að tala um Anní, og við drukkum okkur leið uppúr Amager; yfir miðbæinn inní Nørrebro-hústökukommúnu þar sem vinir hans bjuggu. Tugir virtust hundruðir, þarna voru allir, fram ganga og inni á herbergjum, tíkallabarnum í kjallaranum. Kynnti mig fyrir neo-pönk-byltingarsinna og tilgerðarlegu skáldi, bóhem sem óskaði þess að fólk vorkenndi honum og þannig hvatti hann fólk til að hugga sig eða hugga sig ekki en vorkenna sér; svo ein dansari lauslát, hin málari vandlát. Þær voru allar fallegar gull jarðarinnar; hér var sænskur berfættur, berfættur frá Gautaborg á jafnfljótum til Malmö, trúði ekki á skó, sólar særa jörðina, dýrlingslegur, með höfuðið uppí skýjunum svo engu skipti þó blæddi úr iljunum, undan fótunum niðrí jörðina, yfir liljur vallarins. Iðjagrænar liljur vallarins! Drukkum – dóum ekki eins og óðir menn lengur heldur djöflar, ekki líkir rökmiðjulausum vesalingum heldur líkt og sjálf rökmiðjan væri orðin veislan og þó veislan væri haldin í tóminu þá var tómið innréttað og veislan gleðileg. Gengum í kringum-um, kynnti mig, útskýrði hvað var gott hvað var vont við fólk og heima og líf og speki og leiki á lambabambabrjóstum, fannst ég stöðugt deyja endurfæðast, og ef héldi ég ekki áfram, ef héldum við ekki áfram, myndi heimurinn sjálfur farast. Þó sjónin væri skekkt og allt að því afskræmd hafði ég aldrei séð nokkuð svo skýrt. Hafði aldrei verið jafnánægður með sjálfan mig. Sór þess dýran eið að kollsigla lífinu, héðan í frá yrði hvergi stansað, hvergi hikað, enda hik bara hræðsla, hik drepur líf og líf er allt allt allt og ef hefur ekki lífið, hefur ekkert ekkert ekkert...
Við vorum náttúrulega bara fullir.

(s. 164-165)