Hraunfólkið

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Úr Hraunfólkinu:

Þegar að er gætt, fer meira fyrir matrónunni Guðrúnu Halldórsdóttur dauðri en lifandi. Ekki er nægjanlegt að senda til frú Ragnheiðar á Meðalfelli, heldur er Jón eldri gerður út í langferð, til Vernharðs á Laugarvatni, Einars í Klausturhólum, feðganna á Búrfelli og þeirra í Oddgeirshólum, því hvarvetna þar eystra og neðra átti hún sér fornvini.
 Fyrir því sat nú séra Páll líka við, með skartýru á borði sínu og skrifaði saman það sem heita átti líkræða. Framan af var allt á sléttu: Fædd á Stað í Steingrímsfirði árið 1721, dóttir þess nafntogaða kennimanns séra Halldórs Einarssonar, ein fjögurra systra, hvar af þrjár voru heitnar Guðrún, en hin yngsta Guðríður, sem ein er á lífi og hér á staðnum, sárlega tregandi sína brottkvöddu systur. Guðrún giftist þeim mæta presti, séra Halldóri Brynjólfssyni í Hraungerði, og varð brátt nafntoguð um nálægar sveitir sem hin happasælasta yfirsetukona. Um það góða heimili get sjálfur ég vitni borið, því er séra Halldóri tók að deprast sjón var ég ungur og blautur úr skóla ordineraður honum til aðstoðar, en eftir andlát hans, annó 1775, fluttist frú Guðrún að Langholti í Laugardælasókn, og hlaut ég að fyglja minni góðu húsmóður þangað, henni til forstands um búið um næstkomandi fimm ár...
 Æ já segir séra Páll og hallar sér aftur frá borðinu, með augun á dimmu þilinu. - Hún er lengri en ég hugði, sporaslóð holdsins Guðrún mín, segir hann fram fyrir sig. Líkami vor loðir við jörðina segir Davíð konungur í Sálmunum. Hér er bók sem þú áttir, Sannleiki guðhræðslunnar, árituð þínu nafni með hendi föður þíns. Bezt hún fylgi þér alla leið.
 Hann stendur upp, með bókina og týruna, þreifar sig fram á pallskörina og varlega ofan. Allt er löngu þagnað í bænum, nema hóstakviðurnar í Halldóri litla með jöfnu bili. Hann lýsir fyrir sér fram göngin og inn í framstofuna þar sem Guðrún liggur á fjölunum. Vonda lyktina af tólgarkertunum leggur fyrir vit hans. Hún liggur þar í hvítum línkjól sem fellur þétt að háum maganum og um brjóstin, grátt hárið fléttað og undið upp í krans, hendurnar krosslagðar. Hann gengur að henni signir yfir hana og leggur bókina á barminn fyrir ofan hendurnar. - Æ já. Hvers megnar ungur maður, spenntur af holdsins vessum? Kominn beint úr Skálholtsskóla, beint úr piltasveltinu og sódómunni þar. Og nú sit ég þar uppi, vesæll maður, og læt pennann gleyma því sem andinn man. Og þá kom Sigríður systurdóttir þín, aðeins átján vetra. Þá þáði ég brauð, þetta Þingvallabrauð, og síðan munum við bæði hvernig fór Guðrún mín. Með óeiningu, með kulda og um langa hríð heilu hatri. Eru forlögin ekki grætileg? Nú hefi ég ausið hana moldu, hana Sigríði mína, og nú er mér ætlað að standa á þessari holu skurn og syngja einnig þig til grafar. Hann reynir að krjúpa og fara með bæn, en hnén eru stirð af iktarhnútum; hann man heldur engva bæn.
Hann gekk ekki aftur inn, heldur út á hlaðið, blés á ljósið í dyrunum. Á móti honum reis myrkur veggur Almannagjár, nema birtuglampar hér og þar í bergstálinu. Það eru glampar himins af grýlukertum og ísbólstrum, ekki lestýrur bergvætta eins og hann sagði börnum. Betra þó so væri, betra að Ármaðurinn í Ármannsfelli horfði enn til og héldi hlífðarhendi yfir þessari sorgarinnar sveit. Og yfir aumum klerki hennar, sem ætlar sér nú að felast fyrir Guði og jarða sannleikann með þögninni. Ægja mér! Ægja mér! Um alla tíð og tíma.

(s. 56-57)