Hótel Kalifornía

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 
 
Úr Hótel Kaliforníu:

 Ég gekk rösklega niður í móti, í áttina að Hrafnaklettum, dró djúpt að mér andann inn um nasirnar og fann þá svartsæta lyktina af öskuhaugunum og þungan dauninn af þanginu sem lá rotnandi í stórum bingjum efst í fjörunni.
 
 On a dark desert highway, cool wind in my hair ...

 Það gat stundum verið dálítið einmanalegt að vera einn á gangi í myrkri og kulda, fjarri mannabyggð, birtu og hlýju, en aldrei á ævinni hafði ég verið jafn innilega einmana, týndur og vonlaus og haustmánuðina sem ég bjó einn í litlu herbergi, uppi á þriðju hæð undir súð á gistiheimili í Reykjavík, eins og vængbrotinn fugl í eyðimörk, lítill eftir aldri, horaður og bólugrafinn, svo feiminn að ég gat ekki horft í augun á fólki, klæddur í nýjan gallajakka með loðkraga, víðar gallabuxur og kuldaskó úr leðri, í fyrsta skipti einn á báti, fjarri mömmu og pabba, sextán ára gamall, kominn með pínulítinn skegghýjung í vangann og hár á punginn, orðinn svolítið dimmraddaður, búinn að ljúka grunnskólanámi og nýbyrjaður í menntaskóla.
 Mig langaði, og hafði langað síðan ég var tólf eða þrettán ára gamall, að fara í Iðnskólann og læra rafvirkjun, og sótti þess vegna þar um inngöngu, en mamma og pabbi sögðu að með mínar einkunnir, átta í tungumálum og níu í raungreinum, kæmist ég auðveldlega inn í hvaða skóla sem væri, og fengu mig síðan til þess að sækja líka um í Menntaskólanum í Reykjavík, bara til þess að vita hvort ég kæmist inn, eins og þau orðuðu það, en þegar báðir þessir skólar samþykktu umsókn mína töldu þau fráleitt að hafna hinum rótgróna og virta menntaskóla, flaggskipi hins íslenska menntakerfis, eins og rektorinn komst að orði í setningarræðunni.
 Fyrstu dagarnir og vikurnar í höfuðborginni voru auðvitað dálítið spennandi og tíminn var fljótur að líða, ég var ókunnugur maður í ókunnugu umhverfi, allt var nýtt og margt ókannað, ég var landkönnuður og ævintýramaður og þræddi götur og gangstíga alla daga að lokinni kennslu og langt fram á kvöld, gægðist á búðarglugga, fór í bíó og sá meðal annars Dirty Harry - Magnum Force, Enter The Dragon með Bruce Lee og Emmanuelle 2 með Sylviu Kristel, lauk síðan við heimaverkefnin og fór seint að sofa og snemma á fætur, fór á kaffihús um helgar, bæði á Hressó og Mokka, drakk kaffi og stundum te, las blöðin og glápti út um gluggann, saug upp í nefið, keypti mér pylsu hér og pylsu þar og sælgæti alls staðar, settist á bekki með gosdrykk í hönd, teygði úr fótunum og fylgdist gaumgæfilega með öllu sem fyrir augu bar og hlustaði af athygli á allt sem ég heyrði.
 En eftir að hafa setið rúman mánuð á skólabekk, dag eftir dag, kennslustund eftir kennslustund, umkringdur af sex stelpum og sjö strákum sem áttu að heita bekkjarsystkini mín, en mundu samt aldrei hvað ég hét og heilsuðu mér ekki utan veggja skólans, byrjaði ég að finna fyrir djúpum leiða sem tekið hafði sér bólfestu rétt fyrir ofan eða aftan magann á mér og óx þar og dafnaði dag frá degi, þangað til hann var orðinn svo stór og þungur að matarlystin minnkaði og ég átti erfiðara með að einbeita mér á daginn, sofna á kvöldin og vakna á morgnana.

(s. 106-107)