Hólmgönguljóð

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1960
Flokkur: 

Louisa Matthíasdóttir myndskreytti. 2. útgáfa aukin: Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1985.

Úr Hólmgönguljóðum: [brot]

þú
ert fífilbrekka í brjósti mínu
og ég sé augu þín vina mín
í dögg sóleyjanna
brosi fíflanna
og fyrirheiti fjórblaðasmárans

stór opin augu
sem flugu á milli okkar
þar sem við reyndum að vinna bug á stoltinu
flöktandi fiðrildaaugu
sem settust á okkur til skiptis
eins og við værum lokkhærð ljósálfablóm
nýbúin að setja upp rauða skotthúfu
í tilefni af þjóðhátíðinni
en við vorum ekki blóm
heldur forvitnir nátthrafnar
sem híma fyrir utan hvíta hestinn og naustið
meðan nokkur skíma er af tungli
og von í dropa af franskri sól
fra því í hittiðfyrra:
við vissum ekki það væri hægt að gifta þessi augu
sem gerðu strandhögg þegar minnst varði
og rufu kirkjufriðinn í sál okkar
meðan við skáluðum við nóttina
dauðann
            hégómann tilgerðina lostann þjáninguna
og sungum með svitaholunum:
ein griðka gerir engan dans

þá komuð þið flúgandi og settuzt í hár mitt
litlu fiðrildaaugu:
eins og lilja meðal þyrna varst þú meðal meyja
eins og mosató á svörtu hrauni
varst þú meðal bargestanna

hár þitt gáraðist eins og rekstur á fjalli
og hendurnar titruðu eins og greinar
nýkomnar í græna laufkápu
og ég hljóp út úr nóttinni
dauðanum
             hégómanum tilgerðinni lostanum og þjáningunni
flóttamaður og leitaði hælis í líkama þínum
fjórblaða líkama þínum
meðan drottinn lagði svarta grímu á andlit borgarinnar
og jörðin svaf úr sér vímu gærdagsins

(s. 60 - 62)